Segir flokkun ekki óþarfa þrátt fyrir myndskeið

Jón Þórir Frantzson, forstjóri Íslenska gámafélagsins.
Jón Þórir Frantzson, forstjóri Íslenska gámafélagsins.

Sorp verður losað í tvískipt sorphólf í sorphirðubílum þegar innleiðingarfasa er lokið. Þetta segir Jón Þórir Frantzson, forstjóri Íslenska gámafélagsins. Myndskeið sem sýnir svartar og bláar sorptunnur losaðar í sama gáminn hefur vakið athygli.

Íbúar flokka þó ekki að óþörfu, segir Jón.

Íbúi í Kópavogi, sem þegar er byrjaður að flokka samkvæmt nýju kerfi, hefur undrað sig á því að allt sorp sé sett í sama sorphirðubílinn og að svo virðist sem sorphólfið á bílnum sé ekki tvískipt. 

Um áramótin tóku gildi ný lög um hringrásarkerfi þar sem kveðið er á um að íbúum sé skylt að flokka heimilisúrgang í fjóra flokka við heimili: papp­ír, plast­umbúðir, mat­ar­leif­ar og blandaðan úr­gang. 

Undanfarið hefur verið unnið að því að fjölga tunnum við íbúðarhús samhliða nýju flokkunarkerfi.

Þó virðist sem sorphirðufélög gangi ekki í takt við nýtt flokkunarkerfi, af meðfylgjandi myndskeiði að dæma.

Kerfin skarast í innleiðingarfasanum

Jón segir skýringuna þá að kerfin hafi skarast í innleiðingarfasanum.

Það taki um átta vikur að skipta út tunnum við öll heimili í Kópavogsbæ, nýtt sérsöfnunardagatal hafi ekki tekið gildi og því megi íbúar búast við að sjá pappa og plast sett í sama sorphirðuhólf á meðan á innleiðingunni stendur.

Í framhaldinu verða sorpílát losuð á sorphirðubílum með tvískiptum sorphólfum. Íbúar flokka því ekki að óþörfu. Fyrsta losun á slíkum bíl fór fram í Garðabæ í gær sem eins konar tilraun að sögn Jóns. 

Sorphirðubíllinn sem sjá má í myndbandinu fór með pappann og plastið á flokkunarstoð Íslenska gámafélagsins þar sem það var aftur flokkað að sögn Jóns. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert