Sexomnia þótti ekki trúverðug málsvörn

Maðurinn var dæmdur í tveggja og hálfs árs fangelsi.
Maðurinn var dæmdur í tveggja og hálfs árs fangelsi. mbl.isÓmar Óskarsson

Héraðsdómur Reykjaness hefur dæmt mann í tveggja og hálfs árs fangelsi og til greiðslu miskabóta upp á tvær milljónir króna fyrir nauðgun í heimahúsi. Þá er honum gert að greiða málskostnað og til réttargæslumanns, alls rúmar 7 milljónir króna.

Er maðurinn í dómi sagður hafa nýtt sér svefndrunga konunnar við verknaðinn þegar þau voru stödd í heimahúsi brotaþola og unnusta hennar þann 23. maí 2021.

Maðurinn beitti fyrir sig að hann væri haldinn svefnröskun sem væri á þann vega að hann ætti til að stunda kynlíf án þess að muna eftir því vegna svefndrunga (e. sexomnia). 

Ekki var tekið tillit til þess við uppkvaðningu dómsins.

Stökk upp í miklu uppnámi 

Málavextir voru á þann veg að konan var í gleðskap ásamt unnusta sínum og hinum sakfellda. Þau hafi verið orðin þreytt og farið heim. Hinn ákærði hafi hringt í þau og komið að heimili þeirra um miðja nótt. Þar hafi þau drukkið bjór og neytt fíkniefna. 

Brotaþoli og unnustinn hafi verið þreytt og farið að sofa. Hún segist hafa lagst nakin til hvílu. Hinn ákærði var hins vegar áfram vakandi inni í stofu. Hún hafi svo vaknað við það þegar hún varð vör við að hinn sakfelldi hafi verið að nauðga sér. Við það hafi hún stokkið upp í miklu uppnámi og sagt unnusta sínum frá.

Eiturlyfja hafði verið neytt um nóttina.
Eiturlyfja hafði verið neytt um nóttina. Ljósmynd/Colourbox

Tekið var DNA sýni úr leggöngum konunnar og kom þar í ljós sýni úr hinum ákærða.

Lögregla gerði farsíma hins ákærða upptækan og fram kom á myndböndum að hann hafði neytt fíkniefna. Fram kemur að vinskapur hafi verið á milli konunnar og hins ákærða. Þá hafi hinn ákærði verið besti vinur unnustans. 

Mundi ekki eftir því að hafa farið inn í herbergið

Þau hafi neytt fíkniefna um nóttina áður en til atviksins kom. Skýring hans hafi verið sú að hann mundi ekki eftir því að hafa farið inn í herbergið en viðurkennir að hafa verið nakinn við hlið konunnar. Hann hafi hins vegar vaknað þegar konan stökk á fætur.

Fram kemur í skýrslu sálfræðings að brotaþoli hafi eftir brotið upplifað hjálparleysi, hræðslu, skömm og óöryggi. Eins að hafa sýnt merki áfallastreituröskun.

Í málsvörn sagðist hinn ákærði haldinn kynferðislegri svefnröskun (sexomnia) og ætti til að stunda kynlíf í svefni án þess að vera meðvitaður um það. Hins vegar hafi hann ekki sögu af því að hafa gert það með öðrum en kærustum sínum. Þá hafi hann tjáð sig um að hafa áður ekki munað eftir kynlífi með unnustu sinni.

Svefnröskun þótti ekki trúanleg skýring í málinu.
Svefnröskun þótti ekki trúanleg skýring í málinu. Ljósmynd/Colourbox

Þótti ekki trúverðugt 

Í matsgerð var það metið sem svo að þetta athæfi ætti ekki við þar sem þarna hafi verið um of flóknar aðstæður að ræða svo slíkt ástand geti skýrt aðfarir hins ákærða.

Taldi dómurinn það liggja fyrir í ljósi þess að DNA sýni var til staðar í leggöngum konunnar frá hinum ákærða, auk þess sem frásögn brotaþola þótti trúverðug, að nauðgunarbrot hafi verið framið. Þá hafi það verið metið sem svo að svefnröskun hins ákærða ætti ekki þátt í málinu.

„Yfirmatsmenn segja að það sé ósennilegra en sennilegra að ákærði hafi verði sofandi þegar hann framdi brot sitt þar sem atburðarrásin hafi verið of meðvituð, markviss og skipulögð fyrir hefðbundin sexsomniu fyrirbæri,“ segir í dómnum. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert