Lilja Dögg Alfreðsdóttir ferðamálaráðherra hefur skipað sjö starfshópa sem munu gera tillögur að aðgerðaáætlun fyrir ferðamálastefnu til 2030. Gert er ráð fyrir að stefnan og aðgerðaáætlunin verði lögð fyrir Alþingi á vorþingi 2024.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá menningar- og viðskiptaráðuneytinu en þar segir að hver starfshópur sé skipaður sjö til níu sérfróðum aðilum og formanni. Miðað er við að hóparnir hafi víðtækt samráð við ferðaþjónustuna og aðra haghafa og skili fyrstu drögum að aðgerðum fyrir 1. október 2023.
Þær tillögur fara síðan í opið samráð í samráðsgátt stjórnvalda. Hóparnir munu skila lokatillögum til stýrihóps fyrir 15. desember sem mun samræma aðgerðirnar í eina heildstæða aðgerðaáætlun og skila henni til ráðherra.
Starfshóparnir sjö eru:
En ekki lýkur sögunni þar, því verkefnið er leitt af stýrihóp á vegum ráðuneytisins, sem mun vinna nánar úr þeim tillögum sem koma frá starfshópunum.
Formenn starfshópanna sjö eiga sæti í þeim stýrihóp, ásamt ferðamálastjóra, framkvæmdastjóra SAF, fulltrúa Sambands íslenskra sveitarfélaga, fulltrúum menningar- og viðskiptaráðuneytisins og formanni ferðamálaráðs.
„Það skiptir miklu máli að skapa ferðaþjónustunni hagfelld skilyrði til þess að vaxa og dafna með sjálfbærum hætti með það fyrir augum að skapa aukin verðmæti og lífsgæði fyrir íslenskt samfélag. Ég hef miklar væntingar til vinnu starfshópanna enda höfum við fengið til liðs við okkur fjölbreytt og öflugt fólk með víðtæka þekkingu og reynslu hvert á sínu sviði,“ er haft eftir Lilju Dögg í tilkynningunni.