Skotvopn, skotfæri og búnaður fyrir 336 milljónir

Lögreglumenn fyrir utan Hörpu er leiðtogafundurinn var haldinn.
Lögreglumenn fyrir utan Hörpu er leiðtogafundurinn var haldinn. mbl.is/Kristinn Magnússon

Embætti ríkislögreglustjóra keypti skotvopn og skotfæri vegna leiðtogafundar Evrópuráðsins fyrir um 185 milljónir króna. Jafnframt keypti lögreglan annan búnað fyrir samtals 151 milljón krónur fyrir fundinn.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá ríkislögreglustjóra sem birtist í dag.

Þar kemur fram að endanlegt fjárhagslegt uppgjör á fundinum af hálfu lögreglu muni liggja fyrir í lok júlí. Skotvopnin sem voru keypt voru helst glock-skammbyssur og hálfsjálfvirkar MP5-byssur, þá er ítrekað að ekki sé um að ræða hríðskotabyssur.

Jakkaföt keypt á 12 milljónir

Undir annan búnað sem embætti ríkislögreglustjóra lagði kaup á fellur til dæmis vélhjól sem var keypt fyrir 36 milljónir, hjálmar fyrir 47 milljónir, lögregluvesti fyrir 56 milljónir og jakkaföt vegna lífvarðagæslu fyrir 12 milljónir. Jakkafötin voru keypt af fyrirtækinu NorthWear.

Þá er tekið fram að allur búnaðurinn sem var keyptur muni nýtast lögreglu áfram í fjölbreyttum verkefnum. Jafnframt er tekið fram að lögreglan hafi fengið mikla þjálfun í aðdraganda fundarins og að hún sé núna betur í stakk búin að takast á við krítískar aðstæður.

Vopnast aðeins þegar nauðsyn ber til

„Launaliðurinn er einn stærsti einstaki þátturinn og það á enn eftir að klára að gera hann upp í samvinnu með embættum lögreglu vítt og breyttum landið. Um 650 íslenskir lögreglumenn hafi tekið þátt í verkefninu, 96 erlendir lögreglumenn og um 120 borgarlegir starfsmenn lögreglu,“ segir í kynningunni.

Þá er ítrekað að almenn lögregla vopnist aðeins þegar nauðsyn ber til, til dæmis þar sem sérsveit er ekki til staðar og lögreglan þarf að mæta vopnuðum einstaklingi. Þá kemur einnig til greina að lögreglan vopnist þegar búið er að hækka viðbúnaðarstigið eins og var raunin á meðan á leiðtogafundi Evrópuráðsins stóð.

Vopnin sem keypt voru fyrir fundin er nú í vörslu embættis ríkislögreglustjóra og lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert