Anna María Gísladóttir, móðir stúlku í níunda bekk í Lindaskóla, segist vera hissa og lýsir vonbrigðum með að stúlkum í árgangi dóttur sinnar hafi verið boðið í kynningarferð á vegum Háskólans í Reykjavík, en strákar í sama árgangi verði á meðan úti í boltaleik.
Önnu bárust skilaboð frá Margréti Ármann, aðstoðarskólastjóra Lindaskóla, í dag um fyrirhugaða ferð. Þar var foreldrum tilkynnt að á mánudaginn myndu stúlkur í níunda bekk fara með rútu upp í Háskólann í Reykjavík þar sem 800 stelpur víðs vegar að af landinu munu fá kynningu á þeirri tækni sem er í boði í HR.
Anna segir í samtali við mbl.is að hún hafi tekið því fagnandi að nemendur í grunnskóla fái kynningu á háskólanámi en að hún hafi sett spurningamerki við það hvers vegna strákunum væri ekki boðið með. Af þeim sökum hafi hún sent póst á aðstoðarskólastjórann og spurt hvort strákarnir fengu sambærilega kynningu.
Í svari Margrétar kom fram að HR stæði fyrir þessu til að hvetja stúlkur til að fara í tækninám þar sem meirihluti þeirra sem eru í því námi eru strákar. Margrét upplýsti þá Önnu um að strákarnir myndu verða eftir í skólanum og fara í boltaleik utandyra og „mögulega aðra leiki úti á skólalóðinni.“
Að mati Önnu skýtur þetta skökku við og bendir hún á að um tveir þriðju háskólanema séu stúlkur á meðan strákar detta úr námi í auknum mæli og eru ólíklegri til að skrá sig í háskólanám eftir framhaldsskóla.
„Mér finnst þetta geggjuð kynning og frábært tækifæri fyrir stúlkurnar en strákarnir fá ekkert sambærilegt. Mér finnst þetta fáránlegt. Stelpan mín er að fá að fara á þessa kynningu og það er geggjað en réttlætiskenndin segir til sín.“
Hún segir að ábyrgðin eigi að vera hjá HR að útbúa dagskrá fyrir stráka sömuleiðis og ítrekar mikilvægi þess að kynna háskólanám fyrir strákum.
„Ekki gleyma strákunum. Það þarf að ná strákunum og ná þeim áður en þeir fara í framhaldsskóla. Þetta er mikilvægari tímapunktur til að ná til strákanna.“
Hún segir það ekki nægja að strákarnir fái vonandi einhverja kynningu í framtíðinni og harmar að það sé ekki búið að skipuleggja eitthvað sambærilegt fyrir þá.