„Það vita allir af þessu“

Thelma segir bændurna á Höfða ekki geta sinnt því fé …
Thelma segir bændurna á Höfða ekki geta sinnt því fé sínu sem sé ekki heima við á burðartíma, en það standist ekki velferðarlög. Ljósmynd/Aðsend

Thelma Dögg Harðardóttir, bóndi og sveitarstjórnarfulltrúi í Borgarbyggð, segir alla vita af „absúrd“ dýraníði nágranna sinna á bænum Höfða í Borgarfirði. Vanræksla bændanna hafi staðið yfir í að minnsta kosti tvo áratugi.

„Brotin felast helst í því að féð lítur oft út eins og það hafi ekki verið rúið. Þær eru oft frekar rýrar, ekki í miklum holdum. Á sauðburðartíma eru undantekningalaust einhverjar þeirra farnar á aðra bæi eða upp í fjöll og annað. Þannig að eigendurnir geta ekki sinnt þeim á burðartíma sem stenst ekki velferðarlög,“ segir Thelma Dögg í samtali við mbl.is en Vísir greindi fyrst frá.

„Á veturna ber fólki að vera með dýrin sín alla vega við húsakost eða inni í honum og fóðra dýrin og gefa þeim að drekka. Þau geta ekki sinnt þeim skyldum sínum þegar kindurnar eru á öðrum bæjum að leita sér að fóðri hjá öðrum bændum,“ segir Thelma Dögg.

Árlegur ágangur í tvo áratugi

Thelma segir féð gjarnan leita skjóls við hús næstu bæja við Höfða og stundum séu jafnvel tugir ósóttra kinda frá Höfða í fóðrun yfir veturinn hjá sér.

„Þær eru að leita skjóls við húsin hjá okkur og það stór sér á húsum.“

Thelma segir fé hafa leitað skjóls á stéttinni heima hjá …
Thelma segir fé hafa leitað skjóls á stéttinni heima hjá sér á snjóþungu tímabili í vetur og er þetta það sem kom undan snjónun þegar hlánaði. Ljósmynd/Aðsend

Thelma segir ágang frá kindum frá Höfða hafa verið á hverju ári að minnsta kosti frá árinu 2002 þegar 200 fjár var aflífað á bænum. Sagt var frá aðgerðunum í Morgunblaðinu 1. mars 2002.  

„Það hafa alltaf komið kindur yfir hálsinn á öllum tíma ársins í misjöfnu ástandi,“ segir Thelma.

Fé frá bænum Höfða í Borgarfirði.
Fé frá bænum Höfða í Borgarfirði. Ljósmynd/Aðsend

Sveitastjórn geti lítið gert

Thelma segir engin vopn vera í hendi sveitarstjórnar í málefnum dýraverndar. Matvælastofnun (MAST) sé verndari dýraverndunarlaga en þó mætti sveitarfélagið standa sig betur í að smala afgangsfjár.

Það breyti því ekki að ástandið hafi verið viðvarandi í mörg ár og er ekki að sjá að aðgerðir Matvælastofnunar né annarra hafi skilað neinum árangri.

Thelma tekur sem dæmi kind frá Höfða sem sé mikið slösuð á fæti og er hún núna á næsta bæ við Thelmu.

„Búfjáreftirlitsmaður hunsar ábendingarnar, eigandinn svarar ekki og lögreglan ætlar ekki að sækja kindina. Þannig að hún er núna komin á þriðja sólahring haltrandi og getur ekki stigið í löppina. Þetta er ekkert í fyrsta skipti,“ segir Thelma.

Kind frá Höfða sem þarf verulega á því að halda …
Kind frá Höfða sem þarf verulega á því að halda að vera rúin. Ljósmynd/Aðsend

Ábyrgð eiganda en engar afleiðingar

Thelma segir að fyrir tveimur eða þremur árum hafi hún komið að lambi frá Höfða sem hafði slasað sig illa á löpp. Thelma hafi hringt eftir aðstoð MAST, dýralækna en eigandinn svaraði ekki í síma.

Þá hafi hún þurft að fara af bæ en þegar hún kom til baka var lambið horfið. Taldi hún að einhver hafi komið og sótt lambið. Þremur vikum seinna sá hún lambið aftur og þá var það búið að missa löppina.

„Þetta er svo absúrd dýraníð, það vita allir af þessu. Svona er þetta á hverju einasta ári, fjöldi dæma. Einhvern veginn bera menn fyrir sig að það sé á ábyrgð eiganda að sinna dýrinu sínu en það eru engar afleiðingar ef þú gerir það ekki,“ segir Thelma Dögg að lokum.

Thelma Dögg Harðardóttir, bóndi og sveitarstjórnarfulltrúi í Borgarbyggð.
Thelma Dögg Harðardóttir, bóndi og sveitarstjórnarfulltrúi í Borgarbyggð. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert