„Það er mjög alvarlegt þegar heilu ríkin gera tilvist hinsegin fólks ólöglega á einhvern hátt,“ segir Álfur Birkir Bjarnason, formaður Samtakanna '78, í samtali við mbl.is.
Ströng löggjöf gegn samkynhneigðum var endanlega samþykkt af forseta Úganda, Yoweri Museveni, á mánudaginn. Lögin kveða á um að það geti varðað lífstíðarfangelsi að „taka þátt í samkynhneigðu athæfi“. Þá getur fólk átt yfir höfði sér dauðarefsingu fyrir endurteknar athafnir og ef einstaklingur smitar annan af eyðni.
„Þetta eru grófustu lög sem hafa verið sett í þessum tilgangi þar sem dauðarefsing er mjög líkleg niðurstaða í mörgum málum,“ segir Álfur.
Bætir hann við að um mikið áfall sé að ræða, þá sérstaklega fyrir hinsegin samfélagið í Úganda sem sé bæði smátt og viðkvæmt.
Hefur þetta tekið mikið á hinsegin samfélagið á Íslandi?
„Það gerir það kannski óbeint vegna þess að við vitum það að hluti af fyrirrennurum þessara laga er ákveðin afmennskun sem er að eiga sér stað fyrir ákveðna hluta hinsegin samfélagsins, sérstaklega trans fólk sums staðar.
Það eru að byrja einhvers konar hreyfingar sem vilja afmennska sérstaklega trans fólk á Íslandi og það er mjög alvarlegt af því að við sjáum þá hverjar afleiðingarnar geta orðið.“
Spurður hvað hann vilji sjá frá íslenskum stjórnvöldum í framhaldinu, nefnir Álfur þá þróunaraðstoð sem Ísland veitir Úganda.
„Það þarf augljóslega að grípa þar inn í og skilyrða hana á einhvern hátt. Það þarf að leggja sérstaka áherslu á að sú aðstoð nýtist hinsegin samfélaginu, nýtist hommum og lesbíum sem eru í Úganda og eiga núna fótum sínum fjör að launa líklega.“
Takið þið eftir því að þetta sé þróunin víðar en í Úganda?
„Ekki svona alvarlegt, alls ekki, þetta er langalvarlegasta tilvikið sem við vitum um. En við höfum tekið eftir því að orðræðan hefur verið að breytast, líka bara í nágrannalöndum okkar og hér heima á Íslandi og það er allt tengt. Þetta er ákveðin keðja og ef maður stöðvar ekki þessa lest þá getur hún endað á alvarlegum stað.“