Það er ekki á borði Mjólkursamsölunnar að ákveða með hvaða hætti umbúðir, sem vörur fyrirtækisins eru seldar í, eru flokkaðar. Einungis að hvetja til þess að neytendur flokki umbúðirnar rétt samkvæmt þeim upplýsingum sem MS fær frá móttökuaðilanum að sögn Margrétar Gísladóttur, sérfræðing á hagsýslu- og samskiptasviði MS.
MS er eitt þeirra fyrirtækja sem að kaupir endurvinnanlegar umbúðir frá Tetra Pak. Þó umbúðirnar séu endurvinnanlegar eru þær ekki endurunnar hér á landi með þeim hætti sem þær eru sagðar vera, en Heimildin greindi frá þvi í dag að líklega væru þær sendar til sementsverksmiðju í Evrópu þar sem þær eru síðan brenndar.
Margrét segir MS stöðugt í leit að bestu umbúðunum, með tilliti til umhverfisverndar og matvælaöryggis. Árið 2017 hafi öllum mjólkurfernum verið skipt í þær fernur sem notast er við í dag, en þær hafi verið valdar vegna þess að þær eru umhverfisvænsti kosturinn sem völ er á í dag og bera 66% minna kolefnisspor en fyrri umbúðir.
Þá voru þær jafnframt valdar út frá því að „ef þær færu í rétt flokkunarferil þá væru þær mun umhverfisvænni heldur en aðrar umbúðir“ að sögn Margrétar. Svo sé það á ábyrgð móttökuaðilanna og úrvinnslusjóðs að koma þessu í rétt ferli.
Móttökuaðilar hér á landi, eða þeir sem eru með flokkunina, hafa aldrei sent frá sér skilaboð til MS um að aðrar umbúðir séu betri að sögn Margrétar.
MS greiðir úrvinnslugjald í úrvinnslusjóð og líta á það sem svo að hægt sé að treysta á að þeir ferlar sem snú að endurvinnslu ferna séu í lagi og að þeim sé fylgt eftir. Enda séu til endurvinnslufyrirtæki erlendis með búnað sem ræður við að aðskilja pappírinn í fernunum frá plasti og áli. Það sé beinlínis hlutverk úrvinnslusjóðs að greiða móttökuaðilum fyrir að koma sorpi í réttan farveg að sögn Margrétar.
Margrét segist vona að þetta hafi ekki þau áhrif að fólk hætti að flokka. Það sé þó skömminni skárra að fernurnar fari í endurnýtingu í brennsluofna heldur en að þær fari í urðun. Þó vænlegasti kosturinn væri ávalt endurvinnsla.
Gunnar Dofri Ólafsson, samskipa- og þróunarstjóri hjá Sorpu, segir hins vegar núverandi farveg sennilega skásta farveg sem í boði er, enda endurvinnist samsettar umbúðir mjög illa. Það sé þó ekkert sem að Sorpa geti gert í því, það sé þeirra sem að framleiða umbúðirnar.
Hann veltir þó fyrir sér hvort að plast væri fýsilegri kostur enda auðveldara að endurvinna einsleitar umbúðir. Þó að plast sé alltof mikið notað og eigi sínar dökku hliðar þá sé mjög auðvelt að endurvinna það.
Það sé mikilvægt að reyna að gera betur og segir hann Sorpu vera að skoða hvort hægt sé að gera betur í þessu ferli. Þau muni þó reyna að finna leiðir til þess að vinsa það út á öðrum enda. Hvort sem það sé með því að koma upp ítarlegra flokkunarkerfi eða með öðrum hætti eins og til dæmis hjá móttökuaðilum erlendis.