Íslendingar sem eru 18-24 ára eru neikvæðari fyrir því að hækka eftirlaunaaldur úr 67 í 70 ár, heldur en 65 ára og eldri.
Þetta kemur fram í könnun sem Prósent framkvæmdi dagana 11. til 25. maí. Þar voru Íslendingar spurðir eftirfarandi spurningar:
„Hversu jákvæ(ð/ður/t) eða neikvæ(ð/ður/t) ert þú gagnvart því að almennur eftirlaunaaldur á Íslandi yrði hækkaður úr 67 árum í 70 ár?“
57% þjóðarinnar eru mjög eða frekar neikvæð gagnvart því að hækka eftirlaunaaldurinn, 21% svara hvorki né og 22% eru mjög eða frekar jákvæð gagnvart því að almennur eftirlaunaaldur á Íslandi yrði hækkaður úr 67 árum í 70 ár, segir í niðurstöðum könnunarinnar.
Tekið er fram, að marktækur munur sé á afstöðu eftir kyni. 60% karla séu frekar eða mjög neikvæðir gagnvart hækkun eftiraunaldurs á móti 53% kvenna
Þá kemur fram, að svarendur í aldurshópnum 18-24 ára séu neikvæðari fyrir því að hækka eftirlaunaaldur heldur en svarendur í aldurshópnum 35-44 ára og 65 ára og eldri. Einnig sé marktækur munur á milli aldurshópanna 55-64 ára og 65 ára og eldri. 55-64 ára eru neikvæðari gangvart hækkun heldur en 65 ára og eldri.
Fram kemur að gögnum hafi verið safnað frá 11. til 25. maí 2023. Um er að ræða netkönnun meðal könnunarhóps Prósents. Úrtakið var 2.000 manns (einstaklingar 18 ára og eldri) og var svarhlutfallið 51,5%.