Brotist var inn í Tækniskólann seint í gærkvöldi en þetta staðfestir Hildur Ingvarsdóttir, skólameistari Tækniskólans, í samtali við mbl.is.
Að sögn Hildar var þar einn maður á ferð sem braut upp tvær hurðar að litlum líkamsræktarsal í skólanum með kúbeini. Öryggiskerfið fór þá fljótlega af stað en maðurinn yfirgaf vettvang við það.
„Eftir því sem ég best veit var engu stolið og ef það var einhverju stolið var það eitthvað smáræði,“ segir Hildur sem bætir við að hurðirnar séu illa farnar en að ekki sé um mikið tjón að ræða. Þá nefnir hún að það hafi verið illa gengið um í salnum.