Gestir í sólbaði á meðan rennibrautir eru lokaðar

Sundlaug Akureyrar. Stóru rennibrautunum, Flækjunni og Trektinni, var lokað á …
Sundlaug Akureyrar. Stóru rennibrautunum, Flækjunni og Trektinni, var lokað á þriðjudag. mbl.is/Skapti

„Auðvitað vilja allir hafa allt opið, það er bara skiljanlegt, en það þarf víst að viðhalda þessu og halda þessu fínu,“ segir Elín H. Gísladóttir, forstöðumaður Sundlaugar Akureyrar, um lokun rennibrauta sundlaugarinnar.

Stóru rennibrautunum, Flækjunni og Trektinni, var lokað á þriðjudag vegna framkvæmda.

Starfsmenn frá framleiðanda rennibrautanna sinna viðhaldi á brautunum og er reiknað með því að framkvæmdir standi yfir í að minnsta kosti tvær vikur.

„Það var orðið heilmikið sem þurfti að gera,“ segir Elín, en laga þarf yfirborðið inni í rennibrautunum sem var orðið slitið.

Sundlaugargestir ekki færri

„Við stefnum á að þetta verði orðið mjög flott þegar ferðamannavertíðin fer í gang.“

Spurð hvort fjöldi sundlaugargesta sé minni vegna framkvæmdanna segir Elín svo ekki vera.

„Það eru bara búnir fjórir virkir dagar, þannig að við sjáum nú ekki að sundlaugargestir séu færri. Það er búið að vera gott veður og fólk hefur notið þess að vera í sólbaði í staðinn og njóta stundarinnar. Það er búið að vera yndislegt veður í þessari viku.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert