„Þetta snýst bara um að hjóla hægt og sýna sig og sjá aðra. Síðan er mikilvægast að njóta og hafa gaman.“
Þetta segir Jón Óli Ólafsson, eigandi reiðhjólaverslunarinnar Berlin, um hina árlegu tvídreið þar sem fólk flykkist út á götur miðbæ Reykjavíkur í sínu fínasta pússi og á gamaldags hjólum. Viðburðurinn hófst klukkan tvö í dag en hann hefur verið haldinn árlega síðan árið 2012 undir nafninu „Tweed Ride“ en Jón segir viðburðinn aldrei valda vonbrigðum.
Að sögn Jóns snýst viðburðurinn um að fólk komi saman og klæði sig í sígild og fín jakkaföt og dragtir í anda breskra hefðarmanna og –kvenna áður en hjólað er um miðborgina til dægurstyttingar.
Jón segir viðburðinn hafa gengið mjög vel í dag og að um 50 manns hafi mætt til að taka þátt að þessu sinni. Hann segir fólk bregðast vel við að sjá svo stóran hóp hjóla saman um göturnar í sínu fínasta pússi og segir að það sé mikið brosað og veifað til þeirra eins og alvöru hefðarmönnum og hefðarfrúm sæmir.
„Aðallega fáum við stórt bros og myndatöku og síðan er mikið veifað. Þetta hefur gengið mjög vel í dag. Það eru allir velkomnir að taka þátt, það þarf bara að klæða sig í sparifötin og vera með,“ segir hann sem hvetur fólk eindregið til að taka þátt í þessu skemmtilega athæfi.
Hann segir að sama fólkið mæti oft ár eftir ár á viðburðinn en bætir þó við að á hverju ári sjáist einhver ný andlit í hópnum. Spurður hvort þeir hafi verið heppnari með veður fyrir viðburðinn undanfarin ár svarar Jón því neitandi og segir skilyrðin í dag vera mjög fín fyrir hjólreiðar.
„Númer eitt, tvö og þrjú er bara að það sé ekki rigning. Það er ekkert að þessu.“
Þátttakendur viðburðarins komu saman klukkan tvö í dag fyrir framan Hallgrímskirkju þar sem tekin var hópmynd af prúðbúnum hópnum. Að því loknu hjólaði hópurinn af stað og mun hann hjóla fram á kvöld með tveim stoppum þar sem þátttakendum verður boðið upp á hressingu.
„Síðan er kosið hver er best klæddi herramaðurinn og best klædda daman og auðvitað um fallegasta hjólið,“ segir hann sem segir vegleg verðlaun í boði. Kormákur og Skjöldur verðlaunar fyrir best klædda herramanninn og dömuna en Berlin verðlaunar fyrir fallegasta hjólið.