„Það var bara massíft andlegt ofbeldi“

Guðmundur Skúli Johnsen, formaður Félags lesblindra.
Guðmundur Skúli Johnsen, formaður Félags lesblindra. mbl.is/Eyþór Árnason

„Það var bara massíft andlegt ofbeldi. Ég var kallaður inn á skrifstofu skólastjórans sem hallaði sér bara aftur í stólnum, lokaði augunum og skipaði mér að lesa. Sem ég gat auðvitað illa og leið hræðilega.“ 

Þannig minnist Guðmundur Skúli Johnsen, formaður Félags lesblindra, sértímanna í lestri sem honum var gert að sækja níu ára gömlum á Kirkjubæjarklaustri á áttunda áratugnum. Guðmundur er lesblindur og á þessum tíma bjó skólakerfið ekki að neinum úrræðum fyrir slík börn. Þau voru bara sögð treg eða vitlaus og sagt að æfa sig betur.  

Hvernig áhrif höfðu þessar raunir í skólanum á þig?

„Kirkjubæjarklaustur er skemmtilegur staður og mér fannst ágætt að búa þar en auðvitað leið mér ekki vel í skólanum. Var fullur af kvíða. Þess vegna gerði ég allt sem í mínu valdi stóð til að sleppa við skólann.“

Að því kom að skólastjórinn vildi senda Guðmund í greindarpróf sem foreldrar hans samþykktu gegn því að sonur skólastjórans sjálfs færi líka í slíkt próf. Það var samþykkt og einn daginn var Guðmundur sendur í skólann með þau fyrirmæli að hann ætti að hitta konu úr Reykjavík og leysa einhverjar þrautir. Hann fékk ekki að vita fyrr en löngu síðar að um greindarpróf hefði verið að ræða. „Mér gekk afbragðsvel á þessu prófi og var svo snöggur að mamma hélt að ég hefði ekki einu sinni farið í skólann,“ segir hann hlæjandi. Sonur skólastjórans þreytti víst aldrei prófið.

Margt breyttist við þetta. „Árangur minn á prófinu spurðist greinilega hratt út og á einni nóttu fór ég frá því að vera vitleysingur yfir í að vera ofviti. Kennarar fóru að stöðva mig á göngum og leggja fyrir mig allskonar þrautir. Ég botnaði hvorki upp né niður í þessu. Og veit satt best að segja ekki hvort var betra.“

Hann glottir.

Að ganga plankann

Áður en hann kom á Klaustur gekk Guðmundur í Lundarskóla á Akureyri. Eftir á að hyggja segir hann menn hafa verið að gera sitt besta en þarna voru lestrarörðugleikarnir farnir að há honum í námi. „Það var þarna sem byrjað var að taka mig út úr tíma og kenna mér sér. Ég kallaði það að ganga plankann enda var þetta mjög erfitt félagslega. Skólinn hafði engan skilning á mínum aðstæðum og engar lausnir aðrar en: Þú verður að æfa þig meira!“

Versta martröðin var að vera látinn lesa upphátt fyrir allan bekkinn. „Í mínu tilviki var það ekkert annað en ofboðsleg niðurlæging.“

Allt snerist um texta í skólanum. „Texti er bara tæki til að miðla upplýsingum. Til eru fleiri leiðir. Skólakerfið umgengst texta hins vegar eins og hann sé eitthvað miklu miklu meira, jafnvel Guð almáttugur.“

Ítarlega er rætt við Guðmund í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins. 

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka