Guðrún Erlendsdóttir, lögmaður og fyrrverandi hæstaréttardómari, Svala Thorlacius lögmaður, og Lára V. Júlíusdóttir lögmaður voru sæmdar gullmerki Lögmannafélags Íslands á aðalfundi félagsins 31. maí.
Áður höfðu 16 karlar og ein kona verið sæmd merkinu, að því er segir í tilkynningu félagsins.
Guðrún lauk lagaprófi frá lagadeild Háskóla Íslands árið 1961 og öðlaðist málflutningsréttindi fyrir héraðsdómstólum ári síðar og fyrir Hæstarétti árið 1967. Hún rak lögmannsstofu í Reykjavík á árunum 1961 til 1978, og var aðjúnkt, lektor og síðar dósent við lagadeild Háskóla Íslands til ársins 1986.
Hún var settur hæstaréttardómari á árunum 1982 til 1983 og skipuð hæstaréttardómari árið 1986, fyrst kvenna. Guðrún var varaforseti Hæstaréttar á árunum 1989 til 1990 og forseti réttarins árin 1991 til 1992.
Svala lauk lagaprófi frá lagadeild Háskóla Íslands árið 1968. Hún öðlaðist málflutningsréttindi fyrir héraðsdómstólum ári síðar 1969 og fyrir Hæstarétti árið 1984. Hún starfaði sem fulltrúi lögmanns á árunum 1968 til 1970 og rak eigin lögmannsstofu frá árinu 1976 til 2018.
Svala var fyrst kvenna til þess að taka sæti í stjórn Lögmannafélags Íslands árið 1980 en þá hafði félagið verið starfandi í 69 ár. Svala hefur sinnt fjölda trúnaðarstarfa tengdum lögfræði í gegnum tíðina.
Lára V. Júlíusdóttir lauk lagaprófi frá lagadeild Háskóla Íslands árið 1977. Hún öðlaðist málflutningsréttindi fyrir héraðsdómstólum árið 1980 og fyrir Hæstarétti árið 1998.
Lára starfaði sem fulltrúi á lögmannsstofu á árunum 1977 til 1982 og sem lögfræðingur Alþýðusambands Íslands á árunum 1982 til 1987 og síðar framkvæmdastjóri félagsins frá 1988 til 1994. Hún hefur rekið eigin lögmannsstofu frá árinu 1994 og sat í stjórn Lögmannafélags Íslands á árunum 2001 til 2003.