Hiti mælist 21,5 gráður á Seyðisfirði ef marka má vef Veðurstofunnar. Íbúi á Seyðisfirði les 28 gráður af mælinum sínum og segir bæinn fullan af fólki.
„Inni hjá mér er 24 stiga hiti en úti er 28 stiga hiti. Við njótum blíðunnar svo sannarlega, en það er svolítið skrítið að hafa svona hita dag eftir dag,“ segir Þóra Bergný Guðmundsdóttir, íbúi á Seyðisfirði.
„Við höfum svo sem fengið svona hitabylgjur, það er svolítið annað hvort gott eða vont veður hér í þessum bæ. Þegar það er gott þá er það gott.“
Þóra rekur farfuglaheimilið Hafölduna á Seyðisfirði og segir hún hvert einasta rúm bókað út sumarið.
„Það er allt uppbókað hjá okkur í allt sumar, hvert einasta bæli.“
Spurð hvort hún hafi orðið vör við mikinn straum af fólki í bænum svarar Þóra játandi.
„Það er alltaf fullt af fólki í bænum. Okkar helsti kúnnahópur er fólkið á bílaleigubílunum sem er að fara í kringum landið og svo koma náttúrulega fullt af skemmtiferðaskipum.“