Einn var fluttur á slysadeild með reykeitrun og fimm bílar eru ónýtir eftir eldsvoða við íbúðablokk við Engihjalla í Kópavogi í nótt.
Slökkviliðinu á höfuðborgarsvæðinu barst um hálfþrjúleytið tilkynning um að eldur væri kviknaður í að minnsta kosti þremur bílum.
Að sögn Ásgeirs Halldórssonar, aðstoðarvarðstjóra hjá slökkviliðinu á höfuðborgarsvæðinu, lítur út fyrir að eldur hafi kviknað í einum bíl á bílastæðinu við blokkina og breiðst síðan út í fjóra til viðbótar.
Ekki er vitað um eldsupptök.
Spurður hvort um íkveikju hafi hugsanlega verið að ræða segist Ásgeir ekkert geta sagt til um það, en bílarnir eru ónýtir.
„Þetta var ansi mikið bál og nálægt blokkinni,” segir hann og bætir við að rúður hefðu sprungið á fyrstu hæð blokkarinnar vegna hitans sem myndaðist.
Ekki var talin þörf á því að flytja íbúa blokkarinnar í burtu vegna eldsins, en það var íbúi blokkarinnar sem var fluttur á slysadeild með reykeitrun.
Slökkvistarfi lauk um þrjúleytið og var vettvangurinn í kjölfarið afhentur lögreglunni.
Árekstur varð einnig á Bústaðavegi rétt fyrir klukkan tvö í nótt þegar tveir fólksbílar rákust saman. Enginn var fluttur á slysadeild.
Nóttin var erilsöm í sjúkraflutningum hjá slökkviliðinu og voru þeir yfir 60 talsins á næturvaktinni.