Tómas Arnar Þorláksson
Verkfallsaðgerðir BSRB hafa áhrif á rekstur 37 sundlauga og um 70 leikskóla um allt land. 36 sundlaugar eru lokaðar en sundlaugin í Vestmannaeyjum er með skertan opnunartíma. Þetta staðfestir Freyja Steingrímsdóttir, samskiptastjóri BSRB, í samtali við mbl.is.
Eins og greint hefur verið frá slitnaði upp úr kjaraviðræðum BSRB og Sambands íslenskra sveitarfélaga í Karphúsinu á öðrum tímanum í nótt án niðurstöðu. Þar sem aðilarnir komust ekki að samkomulagi hófust víðtækar verkfallsaðgerðir BSRB í dag í 29 sveitarfélögum.
„Eftir því sem ég best veit þá eru þær eiginlega allar lokaðar. Þetta er öryggisatriði að starfsfólk sé með þjálfun og um leið og það er farið þarf að loka sundlauginni,“ segir Freyja.
Hún tekur fram að margir leikskólar séu lokaðir í dag en að þar sem ekki sé lokað sé verulega skert þjónusta.
Jafnframt hefur verkfallið áhrif á þjónustuver ráðhúsa og bæjarskrifstofa í 26 sveitarfélögum. Að auki hefur verkfallið mikil áhrif á starfsemi áhaldahúsa fjórtán sveitarfélaga sem eru nú í fullum undirbúning fyrir sautjánda júní. Verkfallið gæti því haft áhrif á hátíðarhöld sveitarfélaganna sautjánda júní.
„Það er bara lokað þangað til að kjarasamningar nást, þetta er ótímabundið verkfall. Það er engin starfsemi, engar æfingar eða neitt á meðan þetta heldur áfram að óbreyttu,“ segir Freyja.