„Það hafa borist mjög mörg skilaboð og margir sem eru að hafa samband við leikskólastarfsfólkið sem vinnur með börnunum þeirra og lýsa yfir stuðningi og það er ótrúlega dýrmætt.“
Þetta segir Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB, í samtali við mbl.is en hún tekur fram að aðeins eitt atriði komi í veg fyrir að samkomulag náist á milli stéttarfélagsins og Sambands íslenskra sveitarfélaga í kjaradeilunum.
Sonja segir að búið sé að semja um öll atriði kjarasamningsins fyrir utan ákvæði um eingreiðslu sem að BSRB telur vera grundvallar skilyrði fyrir gerð kjarasamnings. Ber því ekki mikið á milli samningsaðilanna.
Eingreiðslan hljóðar upp á 128 þúsund krónur fyrir félagsmenn BSRB en Sonja bendir á eingreiðslan skipti miklu máli fyrir framfærslu félagsfólksins en að fyrir sveitarfélögin sé eingreiðslan aðeins 0,3 prósent af heildarlaunakostnaði.
„Með eingreiðslunni er verið að taka mið af meðallaunum miðað við að þau hefðu fengið þessar hækkanir frá því í janúar, febrúar og mars.“
Eins og greint hefur verið frá slitnaði upp úr kjaraviðræðum BSRB og Sambands íslenskra sveitarfélaga í Karphúsinu á öðrum tímanum í nótt án niðurstöðu. Hófust því víðtækar verkfallsaðgerðir BSRB í dag í 29 sveitarfélögum.
Aðspurð segir Sonja engan fund vera fyrirhugaðan á milli BSRB og Sambands íslenskra sveitarfélaga að svo stöddu. Hún reiknar þó með því að ríkissáttasemjari muni hafa samband við samningsaðila fljótlega og að fundur verði skipulagður í kjölfarið.
Hún segir mikla samstöðu vera á meðal aðildarfélaga BSRB og félagsfólks.
„Við erum auðvitað búin að vera skýr með okkar kröfu í langan tíma og það er félagsfólkið sem leggur okkur línuna. Það er mjög mikilvægt að skapa sátt inn á vinnustöðunum þar sem fólk er óánægt.“
Spurð hvort að hún sé vongóð hvort að deilan leysist í vikunni svarar Sonja því játandi.
„Við erum auðvitað alltaf vongóð um að þetta leysist sem fyrst. Ekkert af okkar fólki vill vera í verkfalli en við teljum það nauðsynlegt til að tryggja launajafnrétti á vinnustöðunum.“
Spurð um viðbrögð við því að stjórn Sambands íslenskra sveitarfélaga hafi vísað allri ábyrgð á verkfallsaðgerðum á forystufólk BSRB segir Sonja það skjóta skökku við.
„Við erum tveir samningsaðilar og erum fulltrúar og það er auðvitað þannig að það getur enginn einn borið ábyrgð þegar að tveir eru að semja. Síðan verður að horfa til þess að sveitarfélögin geta ekki búið til mismunandi launakjör þegar fólk er í nákvæmlega sömu störfunum.“