Birgir fundaði með Patrice Evra

Birgir fundaði með Patrice Evra
Birgir fundaði með Patrice Evra

Birgir Þórarinsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, átti fund í síðustu viku með Patrice Evra, fyrrverandi fyrirliða Manchester United og franska landsliðsins í knattspyrnu, þar sem þeir ræddu um kynbundið ofbeldi í íþróttum í síðustu viku.

Birgir vinnur að gerð þingsályktunar sem á að taka á kynbundnu ofbeldi í íþróttum, en stefnt er að því að ályktunin líti dagsins ljós á næsta haust.

Fundur menningar- mennta - og vísindanefndar Evrópuráðsins fór fram í London í liðinni viku. Fundinn sóttu fulltrúar frá FIFA, Alþjóðlega Ólympísuambandinu og íþróttamenn sem hafa orðið fyrir kynbundnu ofbeldi, eins og Evra sem varð fyrir kynferðisofbeldi 13 ára gamall í fótbolta.

Evra hefur helgað lífi sínu baráttu gegn kynbundnu ofbeldi eftir …
Evra hefur helgað lífi sínu baráttu gegn kynbundnu ofbeldi eftir merkilegan feril Reuters/TOBY MELVILLE

Birgir segir í samtali við mbl.is að frásagnir íþróttamanna hafi verið þungbærar. „Það var sláandi að hlusta á vitnisburð þeirra sem hafa orðið fyrir þess háttar ofbeldi. Þetta er svartur blettur á íþróttastarfi og verður að taka föstum tökum.”

Mikilvægt að segja frá 

„Á fundi mínum með Patrice Evra sagði hann að það væri mjög mikilvægt að þolendur segðu frá. Hann sagði jafnframt að þeir sem væru uppvísir af kynferðisofbeldi yrðu ekki langlífir í íþróttum, þeir yrðu ekki teknir í sátt meðal sinna félaga. Patrice er ákaflega geðþekkur maður og hvernig hann hefur helgað sig þessari baráttu eftir að knattspyrnuferlinum lauk er aðdáunarvert,“ segir Birgir.

Menningar- mennta - og vísindanefnd Evrópuráðsins vinnur að skýrslu um kynbundið ofbeldi í íþróttum og tillögum til úrbóta fyrir 46 aðildarríki ráðsins. Birgir segir að þingsályktun hans muni taka mið af niðurstöðum þeirrar skýrslu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert