Ætla að byggja fleiri íbúðir og bæta réttindi leigjenda

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra segir ríkistjórnina vilja byggja 1.000 íbúðir í …
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra segir ríkistjórnina vilja byggja 1.000 íbúðir í stað 500 eins og fyrr var áætlað. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Við göngum lengra,“ segir Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra varðandi þær aðgerðir sem ríkisstjórnin kynnti í dag, í þeim tilgangi að sporna við verðbólgu og hækkun vaxta. Meðal þeirra aðgerða sem voru kynntar var lækkun á launahækkun æðstu stjórnenda og aukin uppbygging íbúðarhúsnæðis,

Minnka launahækkun æðstu stjórnenda

Ein þeirra aðgerða sem kynntar voru á vef Stjórnarráðsins í dag, er hækkun launa æðstu stjórnenda um 2,5 prósent í stað 6 prósenta, eins og áður voru áform um.

Í samtali við mbl.is segir forsætisráðherrann að heildarlögunum hafi ekki verið breytt, en að launahækkunin taki tillit til aðstæðna í ár. Launahækkun ráðamanna muni því taka mið af meðaltali reglulegra launa ríkisstarfsmanna á ný að ári liðnu, en taki mið af verðbólgumarkmiðum Seðlabankans í ár.

Áform um launahækkunina vöktu mikil viðbrögð í þjóðfélaginu, en mörgum þótti óviðeigandi að laun ráðamanna hækkuðu, á meðan Seðlabankastjóri boðaði hófsemi í kjaraviðræðum og stýrivextir færu síhækkandi.

Forsætisráðherra sagði launahækkunina vera í samræmi við fyrirkomulag sem var tekið upp með lögum árið 2019 og kveður á um að laun ráðamanna fylgi launaþróun ríkisstarfsmanna en ekki ákvörðuð af kjararáði. 

Byggja 1000 íbúðir í stað 500

Hún segir ríkisstjórnina sömuleiðis vinna að því að útfæra betur þær áætlanir sem komu fram í fjármálaáætlun ríkisins í vor um 18 milljarða tekjuöflun og 18 milljarða aðhald í rekstri.

Það felist meðal annars í því að fresta verkefnum eins og nýbyggingu Stjórnarráðsins og samhæfingarmiðstöð viðbragðsaðila og beina athyglinni að uppbyggingu íbúðarhúsnæðis.

„Þar erum við að eiga framboðsvanda og eftirspurnin er svo sannarlega til staðar og við getum ekki dregið úr henni en við getum aukið framboðið.“

Samkvæmt nýjum aðgerðum verða byggð 1.000 íbúðir á næsta ári, en ekki 500 eins og áður var gert ráð fyrir í fjármálaáætlun. 

Uppbygging á reit stjórnarráðsins er meðal þeirra framkvæmda sem ríkistjórnin …
Uppbygging á reit stjórnarráðsins er meðal þeirra framkvæmda sem ríkistjórnin mun fresta vegna verðbólgunnar. mbl.is/Kristinn Magnússon

Boða aukna skattheimtu

Ríkisstjórnin tilkynnti einnig að stjórnvöld hygðust flýta gildistöku fjármálareglna, en þeim var frestað í Covid og segir Katrín það senda skýr skilaboð um að þau hafi fulla trú á að markmiðum verði náð með því aðhaldi sem hafi verið boðað og tekjuöflun. 

Spurð með hvaða móti ríkisstjórnin hyggist afla nýrra tekna segir Katrín áform um öflun nýrra tekna í raun óbreytt frá fyrri fjármálaáætlun. 

„Við erum að boða aukna skattheimtu á ferðaþjónustu og fiskeldi, við erum að boða aukna skattheimtu á umferð, sem hefur auðvitað hrunið á undanförnum árum vegna breyttrar samsetningar á bílaflota landsmanna þar sem æ fleiri eru á hreinorku bílum,“ segir Katrín og bætir við að einnig verði tekið gistináttagjald og umhverfisgjald t.d. af skemmtiferðaskipum. 

„Þarna erum við að beita tekjuöfluninni, teljum við, á rétta staði í samfélaginu.“

Skýrara regluverk um Airbnb og réttindi leigjenda

Starfshópur hefur verið skipaður til að vinna að lagabreytingum til að bæta réttarstöðu leigjenda á húsnæðismarkaði og mun hann skila inn tillögum þar að lútandi 1. júlí næstkomandi. Katrín segir fyrst og fremst að lóðirnar þurfi að vera til, til þess að bæta stöðu leigjenda og ríkisstjórnin hefji því aðgerðir þar, eins og áður kom fram. Einnig sé horft til þess að sjá til þess að hækkanir á húsnæðisstuðningi renni til leigjenda en ekki eigenda. 

Einnig segir hún ríkisstjórnina boða skýrara regluverk varðandi heimagistingar, eins og Airbnb, með frumvarpi sem verði lagt fram í haust. Heimagistingar, líkt og Airnbn skapa að sögn Katrínar umfangsmikinn þrýsting á íbúðamarkaðinn „ef umfangsmikill hluti af íbúðum er í heimagistingaútleigu, sem sagt Airbnb eins og það er víst kallað,“ segir Katrín. 

Aðgerðirnar taka gildi á mismunandi tíma, en frumvarpið um breytingu á launahækkun stjórnenda kemur fyrst, eða fyrir mánaðamót. Sömuleiðis tekur verðbólguvörn, fyrir þá sem eru á greiðslum almannatrygginga hækkaður um 2,5 prósent á miðju ári, til viðbótar við 7,4 prósent hækkun í upphafi árs. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert