„Ekkert nýtt í þessum tillögum“

Kristrún Frostadóttir segir lítið að frétta í tillögum ríkisstjórnarinnar.
Kristrún Frostadóttir segir lítið að frétta í tillögum ríkisstjórnarinnar. Ljósmynd/Samfylkingin

„Staðreyndin er sú að þegar fjármálaáætlun birtist í vor var það fyrsta sem við gerðum athugasemdir við skortur á fjámagni í uppbyggingu húsnæðis,“ segir Kristrún Frostadóttir, formaður Samfylkingarinnar, í samtali við mbl.is og á þar við nýkynntar aðgerðir ríkisstjórnarninnar í efnahagsmálum.

„Það var stóra loforðið sem við sáum að þau [ríkisstjórnin] voru ekki að standa við og við höfum verið að þrýsta mikið á að þarna sé bætt í til að standa við þetta loforð og fleiri. Nú er búið að bæta þarna í og við fögnum því auðvitað. En að því sögðu er ekkert nýtt í þessum tillögum,“ heldur Kristrún áfram.

Endurunnið efni

Kveður hún þarna eingöngu um endurunnið efni að ræða. „Þegar fjármálaáætlun var birt í mars komu til dæmis strax viðbrögð frá hagfræðingum sem sögðu að aðhaldið væri ekki nægilegt og að það væri ekki verið að fjármagna aðgerðir með skynsamlegum hætti. Allar aðgerðir sem þau [ríkisstjórnin] eru að tala um miða við tímabilið 2024 til 2028, en nú er 2023. Verðbólgan er í dag og hækkanir á nauðsynjavörum eru vandamál sem blasa við fólki í dag,“ segir Kristrún.

Kveður hún nýbirtan verkefnalista Samfylkingarinnar snúast um að taka á stöðunni eins og hún er í dag. „Þetta er til dæmis þessi vaxtabótaauki sem á að styðja við mikið skuldsett heimili sem eru á lægri enda tekjustigans og einstæða foreldra. Auk þess erum við að tala fyrir leigubremsu og svo er þriðji þátturinn ívilnun til uppbyggingar á hagkvæmum íbúðum í almenna íbúðakerfinu þar sem leiga er á félagslegum grunni. Þetta eru allt aðgerðir sem er hægt að samþykkja fyrir þinglok og myndu koma til aðgerða í sumar,“ segir Kristrún enn fremur.

Lítið að frétta

Segir hún allt framangreint mega fjármagna með lokun ehf.-gatsins svokallaða sem byggir á því að fólk telji launatekjur fram sem fjármagnstekjur inn í einkahlutafélög. „Stóra myndin er þessi: Það er lítið að frétta, gamlar tillögur eru kynntar sem nýjar. Við erum að horfa upp á vanda sem er í dag, ekki árabilið 2024 til 2028. Það verður að taka á vanda heimilanna hvað varðar vaxtastigið og leigumarkaðinn – strax í sumar,“ segir Kristrún Frostadóttir Samfylkingarformaður að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert