Sigurður Ingi Jóhannsson innviðaráðherra segir það hafa tvöföld áhrif að fresta framkvæmdum ríkisins eins og kynnt var í dag í aðgerðum ríkisstjórnarinnar gegn verðbólgu. Framkvæmdir við nýjan Landspítala eru þó ekki meðal þess sem verður frestað.
Ríkisstjórnin tilkynnti í dag frekari aðgerðir til að sporna gegn verðbólgu og hækkun vaxta. Þeirra á meðal er að fresta ákveðnum framkvæmdum.
„Við munum ekki draga neitt úr uppbyggingunni á Landspítalanum. Þar eru verulegir fjármunir, 15 milljarðar í ár og 25 milljarðar næsta ár. Við sjáum fyrir okkur þessi árin að fara ekki af stað í hluti eins og Stjórnarráðsreitinn og eins samhæfingarstöð viðbragðsaðila,“ segir Sigurður Ingi í samtali við mbl.is.
„Það eru verkefni, svo dæmi séu tekin, sem að við getum auðveldlega frestað til þess að skapa aukið svigrúm fyrir byggingargeirann til að byggja íbúðarhúsnæði og þess vegna erum við að leggja áherslu á það á móti.
Þannig að þetta eru tvöföld áhrif af því að fresta þessum aðgerðum: Annars vegar ákveðinn sparnaður og hins vegar sköpum við svigrúm fyrir byggingageirann,“ segir Siguður Ingi.
Sigurður Ingi segist vonast til þess að aðgerðirnar skili tvennu.
Annars vegar að þær styðji við aðgerðir Seðlabankans í baráttunni gegn verðbólgu í þeirri von að hún hjaðni fyrr en ella.
„Síðan og ekki síður þá erum við að vonast til þess að slá á verðbólguvæntingar sem eru mun hærri hérlendis heldur en víðast annars staðar þrátt fyrir mjög góðan gang í efnahagsmálunum og gríðarlega aukinn afkomubata ríkissjóðs á einu ári.
Það verður ekki of oft sagt að sú sveifla er upp á rúma 90 milljarða frá því að við vorum að fjalla um fjárlögin í desember. Batinn er upp á 90 milljarða á tekjuhliðinni,“ segir Sigurður Ingi.