National Geographic og ítalskir landfræðingar rannsökuðu hraunhella Fagradalsfjalls á dögunum, sem enn mælast sumir yfir 100 gráðu heitir. Talið er að nokkrar nýjar steindir hafi fundist í hellunum, en þeir eru í hrauninu sem kom úr fyrra eldgosinu við fjallið sem kennt hefur verið við Geldingadali.
Birgir Vilhelm Óskarsson, jarðfræðingur hjá Náttúrufræðistofnun, kom að verkefninu og segir í samtali við mbl.is að hópurinn rannsaki hella um allan heim. Hann hafi komið til Íslands til að rannsaka hraunið við Fagradalsfjall, sem ennþá er heitt, þó að um 20 mánuðir séu liðnir frá því að hætti að gjósa.
Að sögn Birgis stóð helst til að rannsaka útfellingar sem myndast í hellunum við ákveðið hitastig en eru mjög skammlífar. Um er að ræða steindir sem vaxa á hraunveggjunum en hverfa fljótt í kjölfar kólnunar hraunsins.
Spurður hvort rannsóknir hópsins hafi leitt eitthvað nýtt í ljós greinir Birgir frá nokkrum nýjum steindum. „Þau telja sig hafa fundið fjórar eða fimm nýjar steindir, sem vaxa inni í þessum hellum, en það á eftir að koma í ljós með nánari athugun,“ segir hann og bætir við að nú sé verið að rannsaka steindirnar betur á tilraunastofu.
Birgir greinir frá því að rannsóknin hafi verið umfangsmikil og krafist háþróaðs tæknibúnaðs. Meðal annars hafi verið notaðir drónar til að kortleggja hellana en hópurinn hafi líka klæðst sérstökum búningum til að kanna þá upp á eigin spýtur.
„Þau komust inn í staði þar sem hitastig var alveg í kringum 130 gráður á celsíus,“ segir hann. Búningurinn hafi veitt þeim vörn og þau þar að auki notað súrefniskúta og gasgrímur, en þrátt fyrir allan þann búnað hafi þau ekki getað verið lengi inni í hellunum við þetta hitastig.
Á einum tímapunkti fékk Birgir sjálfur að fara inn í heitan helli. Mældist sá hellir 60°C og notaði hann gasgrímu þó ekki hafi verið metin þörf á að fara í allan búninginn.
„Það er dálítið óhugnanlegt að vera í svona miklum hita,“ segir Birgir og bætir við „þetta er bara eins og að vera í saunu, mjög þurri saunu.“
Í facebook-færslu Francesco Sauro, leiðangursstjóra rannsóknarinnar, kemur fram að hópnum hafi tekist að taka sýni við meira en 250°C og finna glóandi hraun. Mældist þá einn glóandi hraunbitinn meira en 450 gráðu heitur, sem þykir merkilegt svona löngu eftir goslok.
Rannsóknin var meðal annars unnin með Háskóla Íslands, Náttúrufræðistofnun Íslands og Hellarannsóknafélagi Íslands og segir Birgir hana hafa verið áhugaverða. Hann segir hópinn hafa sett upp vinnusvæði á fjallinu og unnið þar í ellefu daga, en hópurinn lauk störfum sínum á Íslandi í síðustu viku.