Eggert Skúlason
Sorgarleyfi er nú bundið í lög og miðast við foreldra sem missa barn undir átján ára aldri. Það er að mati gests Dagmála löngu tímabær viðurkenning á því að fólk þurfi tíma til að tjasla sér saman eftir svo mikinn missi. Guðrún Jóna Guðlaugsdóttir sem kom að stofnun Sorgarmiðstöðvar og vinnur við forvarnir gegn sjálfsvígum hjá embætti Landlæknis er viðmælandi Dagmála í dag.
Hún telur að útvíkka þurfi sorgarleyfið og tryggja að fleiri geti notið þess. Hún nefnir makamissi og segir að oftar en ekki þurfi ekkjur og eklar að eyða mikilli í orku í að hugsa um eftirlifandi börn þegar þeirra sorg er engu minni.
Þá ræðir hún þann tíma sem sorgin tekur, en þar er fólk afskaplega misjafnt. Vinnustaðir geta fengið upplýsingar á vef Landlæknisembættisins hvað er gott að gera þegar óvæntur missir á sér stað. Guðrún Jóna segir marga nefna að það taki allt að sjö ár að fara ekki að gráta við ólíkustu tækifæri.
Sorgin er umræðuefni Dagmála í dag. Þátturinn í heild sinni er opinn fyrir áskrifendur Morgunblaðsins.