Þorlákur Einarsson
Fyrirhugað frumvarp Ásmundar Einars Daðasonar, mennta- og barnamálaráðherra, um framtíðarskipulag skólaþjónustu var rætt á samráðsfundi í Hörpu nú í morgun.
Meðal róttækra hugmynda sem þar komu fram var skipting landsins í stærri skólaumdæmi, svo smærri sveitarfélög fái sambærilega skólaþjónustu og annars staðar á landinu.
Sömuleiðis reifaði Anna Tryggvadóttir, skrifstofustjóri á skrifstofu ráðuneytisstjóra og innri þjónustu, þá hugmynd að minni sveitarfélög geti leitað til ríkisins um framkvæmd á rekstri skólaþjónustu.
Ásmundur Einar sagði skort á mannauði víða í kerfinu vera áhyggjuefni, og geta má að þetta sé ein leið til að bregðast við því. Hægt verður að skila ábendingum inn til ráðuneytisins út júní en þá mun eiginleg frumvarpsgerð fara fram.
Ásmundur Einar segir hugmyndir hans nýja miðlæga stofnun í stað Menntamálastofnunnar hafa fallið í góðan jarðveg meðal skólafólks.
Sigrún Daníelsdóttir, verkefnastjóri hjá mennta- og barnamálaráðuneytinu, áréttir að tilgangur nýrra laga sé að veita aðgengi að fagþekkingu, sem ekki sé alltaf til staðar í smærri sveitarfélögum. Sömuleiðis þurfi að auka eftirfylgni því annars séu lögin tómur stafur. Það ferli sem nú lýkur senn er byggt á samráði við um 2000 manns innan úr skólastarfinu öllu og markmiðið er að tryggja sambærileg gæði náms um allt land.