Ríkið sér um að innheimta meðlög

Verkefni Innheimtustofnunar sveitarfélaga færast til ríkisins.
Verkefni Innheimtustofnunar sveitarfélaga færast til ríkisins. Morgunblaðið/Árni Sæberg

Verkefni Innheimtustofnunar sveitarfélaga, þ.á m. innheimta meðlaga munu færast til ríkisins frá og með 1. janúar 2024.

Þetta segir í tilkynningu á vef Stjórnarráðsins en í lok síðustu viku samþykkti Alþingi lagafrumvarp Sigurðs Inga Jóhannssonar innviðaráðherra um breytingar á lögum um innheimtustofnun sveitarfélaga.

Stjórnsýsluverkefni til sýslumanns

Verða því verkefni Innheimtustofnun sveitarfélaganna lögð niður en sýslumaðurinn á Norðurlandi vestra á Blönduósi mun taka að sér stjórnsýsluverkefni Innheimtustofnunar. Þá er tekið fram í tilkynningunni að sýslumenn séu innheimtumenn ríkissjóðs.

Markmiðið með tilfærslu verkefnanna til ríkisins er að skapa trausta umgjörð um innheimtu meðlaga og annarra framfærsluframlaga, einfalda verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga, stuðla að jákvæðri þróun starfseminnar og bæta þjónustu við meðlagsgreiðendur,“ segir í tilkynningunni.

Sigurður Ingi mælti fyrst fyrir lagafrumvarpinu í mars og sagði þá að um langt skeið hafi verið hugmyndir um að færa verkefni stofnunarinnar til ríkisins. 

Innviðaráðuneytið og dómsmálaráðuneytið komust að sameiginlegri niðurstöðu um að í ljósi langrar reynslu sýslumannsembættanna af innheimtu ýmissa opinberra gjalda og góðs árangurs innheimtumiðstöðvarinnar á Blönduósi, væri verkefnið best staðsett hjá sýslumanninum á Norðurlandi vestra.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert