Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, þingmaður Viðreisnar, líkti ríkisstjórninni við Þyrnirós og sagði hana loksins vera vaknaða til að ræða um aðgerðir gegn verðbólgu.
Ríkisstjórnin fundaði aukalega í morgun til að ræða aðgerðir gegn verðbólgu en aðgerðir voru kynntar á vef Stjórnarráðsins í dag.
Þorgerður Katrín sagði í óundirbúnum fyrirspurnum á Alþingi í dag að fagnaðarefni væri að ríkisstjórnin væri að vakna af draumsvefni um frumjöfnuð og hagvöxt.
Spurði hún hvers vegna hafi ekki fyrr verið ráðist í mótvægisaðgerðir gegn verðbólgunni.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra sagði málflutning Þorgerðar Katrínar dæmalausan.
„Það er nánast eins og háttvirtur þingmaður sé lostinn minnisleysi því hér eru svo sannarlega búnar að vera mótvægisaðgerðir vegna stöðunnar í efnahagsmálunum allt árið,“ sagði Katrín.
Nefndi hún aukinn húsnæðisstuðning, hækkun barnabóta, hækkun bóta almannatrygginga, eignamörkin í vaxtabótakerfinu, frítekjumark atvinnutekna og hækkun persónuafsláttar.
„Það verður […] lagt í sérstakar aðgerðir til að mæta framboðshliðinni á húsnæðismarkaði. Þar þarf að gefa í og þar er ég að tala um stofnframlög til almenna íbúðakerfisins, sem við munum hækka. Á móti munum við draga úr framkvæmdur í öðrum byggingaframkvæmdum því við ætlum ekki að auka þensluna með okkar aðgerðum,“ sagði Katrín.
„Ó vakna þú mín Þyrnirós. Og það er loksins að Þyrnirós er að rumska,“ sagði Þorgerður Katrín er hún talaði í pontu annað sinn.
Sagði hún ríkisstjórnina loksins hafa séð tækifæri til þess að bregðast við að svara verðbólgunni eftir 13 stýrivaxtahækkanir í röð.
„Hvað varð það til þess að hún vaknaði af þessum þessum Þyrnirósasvefni?“ spurði Þorgerður forsætisráðherra.
„Það var boðað til aukafundar í dag, fimmta júní 2023, þegar þetta viðfangsefni er búið að blasa við mánuðum saman,“ sagði Þorgerður Katrín.
Katrín Jakobsdóttir sagði Þorgerði hafa verið með sama málflutning um stöðu efnahagsmála óháð hagvexti og verðbólgu frá árinu 2018.
„Ég velti því fyrir mér hvernig háttvirtir þingmenn Viðreisnar ætli að útskýra það að afkoma af frumjöfnuði séu nú 90 milljörðum betri en gert var ráð fyrir við samþykkt síðustu fjárlaga.
Hvernig ætla háttvirtir þingmenn Viðreisnar að útskýra það þegar hér er alltaf talað eins og húsið sé að brenna og brunnið og alveg sama hvernig staðan er í rauninni í efnahagsmálum,“ sagði Katrín.