Torfæruhjóli ekið á unga stúlku

Lögreglan að störfum.
Lögreglan að störfum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ökumaður torfæruhjóls ók á unga stúlku sem var að leik á skólalóð í hverfi 203 í Kópavogi.

Stúlkan var flutt á slysadeild með sjúkrabifreið en talið er að meiðsli hennar séu minniháttar.

Undir áhrifum með hnífa á sér

Ökumaður var stöðvaður í Breiðholti. Hann reyndist undir áhrifum fíkniefna og var með fíkniefni meðferðis. Einnig var hann með hnífa á sér og verður hann því einnig kærður fyrir vopnalagabrot, að því er segir í dagbók lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu vegna verkefna frá klukkan 17 í gær til kl. 5 í morgun.

Til vandræða á bráðamóttöku

Kona sem var til vandræða á bráðamóttöku Landspítalans var handtekin og flutt á lögreglustöð. Eftir að rætt hafði verið við hana var henni sleppt þar sem hún lofaði bót og betrun.

Kona í annarlegu ástandi sökum áfengis var til vandræða á veitingastað í hverfi 105 í Reykjavík. Henni var ekið til síns heima þar sem útilokað var að hún kæmist þangað hjálparlaust.

Sofnaði og ók á vegrið

Umferðaróhapp varð á Reykjanesbraut þar sem ökumaður ók á vegrið. Engin slys urðu á fólki en bifreiðin var óökuhæf eftir óhappið. Talið er að ökumaðurinn hafi sofnað við stýrið.

Þá var maður handtekinn og vistaður í fangaklefa vegna hótana og vopnalagabrots í hverfi 221 í Hafnarfirði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert