Ekki forsvaranlegt að hækka skatta

Anna Hrefna Ingimundardóttir, aðstoðarframkvæmdastjóri SA, segir uppbyggingu íbúðarhúsnæðis ekki eiga …
Anna Hrefna Ingimundardóttir, aðstoðarframkvæmdastjóri SA, segir uppbyggingu íbúðarhúsnæðis ekki eiga að liggja í höndum hins opinbera. mbl.is/Árni Sæberg

Anna Hrefna Ingimundardóttir, aðstoðarframkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins (SA) segir það jákvætt að dregið verði úr launahækkunum æðstu stjórnenda og sendi mikilvæg skilaboð í tengslum við komandi kjaraviðræður. Hún kveðst hins vegar hafa viljað sjá frekari aðgerðir varðandi útgjöld í stað skattahækkana. 

„Tekjur hafa verið ítrekað umfram væntingar, vandinn er að þeim hefur verið ráðstafað beint í aukin útgjöld,“ segir Anna. 

„Ef ætlunin er að hafa sem mest áhrif á verðbólgu, sem fyrst, þá hefði það legið beinna við að taka til á útgjaldahliðinni og í raun ekki forsvaranlegt að hækka skatta fyrr en tækifæri til að draga úr útgjaldahliðinni hafa verið tæmd.“ 

Útgjaldavöxtur algjörlega ósjálfbær

Anna segir það einnig jákvætt að fjármálareglur ríkisins taki við fyrr en áætlað var og að skoða eigi árangur þeirra og endurmeta umgjörðina. 

Hún segir samtökin lengi hafa talað fyrir endurmati og árangursgreiningu útgjalda, ekki síst í tilfærslukerfum, en að sögn Önnu hefur útgjaldavöxtur verið algjörlega ósjálfbær. 

Anna segir að unnið hafi verið endurmati útgjalda hins opinbera en niðurstöður liggi enn ekki fyrir. „Af einhverjum ástæðum virðist sú vinna ganga hægt og erfiðlega.“

Niðurgreiðum húsnæði einhverra á kostnað annarra

Aðspurð hvort áætlanir ríkisstjórnarinnar um aukna íbúðauppbyggingu sé jákvæð að hennar mati, segir Anna íbúðaruppbyggingu vissulega jákvæða en best væri ef hún væri ekki á vegum hins opinbera, betra væri ef skilyrði þannig að einkaaðilar stæðu fyrir uppbyggingunni.

„Þó að hið opinbera segist vera að byggja ódýrari og hagkvæmari íbúðir, þá verða þær ekkert ódýrari og hagkvæmari, nema að skilyrðin bjóði upp á það,“ segir Anna.

„Annars erum við alltaf að niðurgreiða húsnæði einhverra á kostnað annarra. Í stað þess að raunverulega draga úr byggingakostnaði,“ segir Anna og nefnir þar sem dæmi aukningu á lóðaframboði, lækkun fjármögnunarkostnað og bætt regluverk.

Ekki jákvætt að sífellt slá fjárfestingu á frest

Hún segir það vissulega ekki æskilegt að hið opinbera og einkaaðilar séu að keppast um aðföng þegar kemur að fjárfestingu, það valdi aukinni þenslu og verðbólgu og ekki sé æskilegt að hella olíu á eldinn í ljósi núverandi aðstæðna.

Dæmi sýni samt sem áður að sífellt sé verið að fresta fjárfestingum. „Núna kannski vegna verðbólgu, en oft bara að því það hefur ekki verið svigrúm í opinberum rekstri.“

„Það er ekki jákvætt að sífellt sé verið slá fjárfestingu á frest,“ segir Anna. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert