„Kannski má ég ekki segja þetta“

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, segir fullkomið stjórnleysi ríkja í …
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, segir fullkomið stjórnleysi ríkja í landinu. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, þingmaður Miðflokksins, sagði tíma stjórnleysis ríkja í landinu í eldhúsdagsræðu sinni á Alþingi í kvöld. Sigmundur gagnrýndi efnahagsmál á landinu harðlega, en einna mest gagnrýndi hann „fullkomið stjórnleysi í málefnum hælisleitenda.“

Sagði hann mikið stjórnleysi ríkja í efnahagsmálum, en ríkistjórnin hafi aukið útgjöld um 70 prósent. „Þetta á ekki að vera hægt. Ein ríkistjórn á ekki að geta aukið útgjöld svona mikið, hvað þá miðað við að þau hafa ekkert til að sýna fyrir það,“ sagði Sigmundur. 

„Hver er afraksturinn?“ spurði hann og benti á að ekki væri hægt að sjá það á úrbótum í heilbrigðiskerfinu, þar sem biðlistar hefðu lengst og ekki væri að sjá að kerfið hefði batnað. 

Sigmundur benti á eins og margir ræðumenn kvöldsins að aðgerðaáætlun ríkisins gegn verðbólgunni væri að mestu endurnýtt úr fyrir áætlun. „Þessi aðgerðaráætlun er sýndarmennska, hún er bara plat.“ 

Eiga víst að kalla flóttamannabúðir Skjólgarða

Sigmundur sagði vanta alla framtíðarsýn á landinu og sagði það hvergi jafn áberandi og í því fullkomna stjórnleysi sem ríkti í málefnum hælisleitenda, en hann varpaði fram áhyggjum sínum á hver ört hælisleitendum fjölgaði í landinu og viðbrögðum stjórnvalda.

„Viðbrögðin eru engin, hvað sem líður stöku áhyggjuröddum,“ sagði Sigmundur. Þá gagnrýndi hann áform um að byggja úrræði fyrir hælisleitendur hér á landi, og sagði það ekkert annað en flóttamannabúðir.

„En eitthvað er það nú viðkvæmt, þannig við eigum víst að kalla þetta, hvað var það, Skjólgarða?“ sagði Sigmundur og leitt spyrjandi í átt að forsætisráðherra.

Landsmenn á námskeið um hvernig þeir eigi að hugsa og tjá sig

Þá nefndi hann stjórnleysi í byggðarmálum, landbúnaðarmálum og í orkumálum. „Það eina sem við vitum um framhaldið þar, er að öll sú nýja orka sem kunni að verða til eigi að fara í orkuskipti. Engin orka um fyrirsjáanlega tíð í nýja verðmætasköpun,“ sagði Sigmundur og bætti við að ekki væri það skárra að til stæði að tuttugu manna nefnd í Brussel eigi að leggja línurnar um það hvað teljist góð fjárfesting á Íslandi. 

„Kannski má ég ekki segja þetta. Enda stendur til að setja alla landsmenn alla í endurmenntun, á námskeið um hvernig þeir eigi að hugsa og tjá sig.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert