Það var mikið um að vera í Skálholti í gær þegar 800 ára gömul steinkista Páls Jónssonar biskups í Skálholti var opnuð. Dr. Joe Wallace Wasler III, sérfræðingur í mannabeinasafni á Þjóðminjasafni Íslands, hyggst rýna í líkamsleifar Páls sem lést árið 1211, en undanfarin ár hefur hann staðið í ströngu við rannsóknir á farsóttum og breytingum í mataræði ólíkra Íslendinga á fyrri öldum.
Wallace Wasler, sem hefur einnig rannsakað líkamsleifar annarra biskupa Skálholts sem uppi voru á 17. og 18. öld, segir líkamsleifarnar sem fundist hafa í Skálholti bjóða upp á einstakt tækifæri til fornleifarannsókna vegna þess að nú þegar liggi fyrir umtalsverðar upplýsingar um líf fólks í Skálholti fyrr á öldum.
Fjóra þurfti til þess að opna kistuna sem vegur 730 kíló. Á henni hvílir þungt steinlok sem brotnað hefur niður í nokkra hluta í tímans rás. Því þurfti að taka lokið af í nokkrum skrefum áður en hægt var að taka upp kistuna sem inniheldur líkamsleifar Páls.
Þá fór Kristján Björnsson vígslubiskup í Skálholti með bæn fyrir viðstadda áður en lengra var haldið svo ró hins látna væri ekki raskað. Þegar kistan hafði verið sótt var lokinu komið fyrir aftur af mikilli nákvæmni af hálfu starfsmanna Þjóðminjasafns Íslands.
Kista Páls Jónssonar var síðast opnuð árið 1954 eftir að hafa fundist við rannsóknir á kirkjugarðinum í Skálholti.
Nánari umfjöllun má finna í Morgunblaðinu í dag.