Regnboginn verður til frambúðar

Regnboginn var málaður neðst á Skólavörðustíg árið 2015 og fær …
Regnboginn var málaður neðst á Skólavörðustíg árið 2015 og fær að vera þar áfram. Ljósmynd/Reykjavíkurborg

Regnboginn sem málaður er á Skólavörðustíg fær að vera þar áfram. Verður hann nú ekki málaður, heldur lagður með slitsterku efni. Þetta kemur fram í tilkynningu á vef Reykjavíkurborgar frá því í dag.

Regnboginn hefur nú síðan árið 2015 fengið að vera á Skólavörðustíg og í millitíðinni orðið eitt sterkasta kennileiti borgarinnar.

„Þessi varði skiptir miklu máli í hugum og hjörtum okkar allra sem berjumst fyrir mannréttindum hinsegin fólks sem hefur átt undir högg að sækja. Kennitákn um hinseginleika og hinseginbaráttu á sannarlega heima í hjarta Reykjavíkur,“ er haft eftir Dóru Björt Guðjónsdóttur, formanni umhverfis- og skipulagsráðs borgarinnar, í tilkynningu, en ráðið samþykkti einróma í morgun að regnboginn myndi áfram eiga veglegan sess á sínum stað.

Tákn um mannréttindaborg

Fagna Samtökin 78 þessari ákvörðun ráðsins og er jafnframt haft eftir Álfi Birki Bjarnasyni, formanni samtakanna að þetta séu dásamleg tíðindi. „Það er dásamlegt að regnboginn verði áfram á sínum stað til frambúðar enda kennitákn um mannréttindaborgina Reykjavík þar sem öll eru velkomin.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert