Inga Sæland, formaður Flokks fólksins, fór hörðum orðum um ríkisstjórnina í eldhúsdagsumræðum sem nú standa yfir á Alþingi.
Sagðist Inga aldrei hafa upplifað jafn mikið vonleysi og sorg í íslensku samfélagi eins og nú. Sagði hún ríkisstjórnina hunsa neyðaróp landsmanna
„Þessi ríkisstjórn hefur stungið fingrunum í eyrun og kosið að túlka neyðarópin sem gleðióp þeirra sem hafa það að meðaltali alveg rosalega gott,“ sagði Inga.
Sagðist Inga kvíða því á hverjum degi að opna póstinn sinn þar sem hún fái tugi tölvupósta á hverjum degi frá fátæku fólki í neyð.
Kallaði Inga eftir því að ríkisstjórnin myndi hætta að skattleggja fátæka. „Ágæta ríkisstjórn, í guðanna bænum farið að vakna og farið að hjálpa þeim sem raunverulega eru að kalla á hjálp og eru að drukkna.“