„Við erum búin að vera á svona mörkuðum í hvað...ætli það séu ekki komin 25 eða 30 ár. Við byrjuðum á að fara til Gotlands á miðaldavikuna þar og fórum svo að fara á fleiri markaði og núna erum við til dæmis með þrjá fasta markaði hérna í Noregi hvert ár, í Ósló, Tønsberg og Hamar.“
Þetta segir Ingibjörg Gísladóttir, miðaldaáhugakona frá Akureyri sem stödd er ásamt eiginmanni sínum, hinum bandaríska Christopher Yearian, á hinni árlegu Miðaldahátíð í Tønsberg, elsta bæ Noregs eftir því sem Snorri skrifar í Heimskringlu sína, en kannski ekki endilega að haldi bestu núlifandi sagnfræðinga.
„Aðalatvinnan okkar er þó búð sem við höldum úti í Borås í Svíþjóð og svo erum við með tvær búðir á netinu,“ segir Ingibjörg og síðasta orðið afhjúpar berlega að þar fer Akureyringur sem varðveitt hefur sitt norðlenska harðmæli vel svo sem margra sveitunga hennar er siður.
En hvaðan kemur þessi mikli miðaldaáhugi Ingibjargar þá? „Ja, það er bara Akureyri og maður er Íslendingur og gamall víkingur og allt þetta, þetta er bara gaman,“ svarar Norðlendingurinn sem flutti til Svíþjóðar 1986. „Við fyrrverandi maðurinn minn fluttum út saman af því að hann fékk vinnu í Svíþjóð. Svo skildum við og ég kynntist Christopher í Skotlandi og við stofnuðum þetta fyrirtæki saman. Við byrjuðum með steina og skartgripi en þegar við fórum að gera þetta að miðaldamarkaði bættust við sverð og fleira,“ segir Ingibjörg og kveður þau hjónin lifa auðveldlega af starfsemi sinni.
Hvað skyldi hún hafa starfað við á Íslandi þá?
„Það var nú bara svona reytingur, ég var í bakaríi og í fiskvinnslu, en ég var svo ung þegar ég flutti frá Íslandi, 25 eða 26 ára, og ég var aldrei mikið inni í atvinnulífinu á Íslandi þannig séð,“ svarar Ingibjörg sem kann lífinu í Svíþjóð vel.
„Mér finnst Svíþjóð töluvert mýkra samfélag, þar er til dæmis auðvelt fyrir ungt fólk að flytja að heiman og koma undir sig fótunum. Ég hef kunnað mjög vel við mig í Svíþjóð, ég elska Ísland en ég get ekki hugsað mér að flytja til baka,“ segir Akureyringurinn sem verður í Hamar, norður af Ósló, næstu helgi á nýrri víkingahátíð en eftir það taka Finnland og Gotland við.
Ingibjörg segir hátíðina í Tønsberg vel sótta, „við höfum varla komist á klósettið“, segir hún og hlær, „en mér finnst þetta rosalega skemmtilegur bær, Tønsberg, hann minnir mig svolítið á Akureyri“.
En skyldu Svíar vera jafn áhugasamir og Norðmenn um miðaldir og víkingatíma?
„Já, þetta er rosalega vinsælt. Fólk er orðið þreytt á þessum venjulegu mörkuðum sem eru bara að selja eitthvert plastdrasl og sokka. Margir hafa gaman af að klæða sig í miðaldafatnað og setja upp tjöld og detta inn í þennan lífsstíl, borða miðaldamat til dæmis,“ segir Ingibjörg en þar er aldeilis á vísan að róa fyrir Íslendinga með sinn sívinsæla þorramat.
En Norðurlandabúar eru ekki einir um að vera áhugamenn um miðaldir, víkinga og löngu horfna tíð, það fengu þau hjónin að reyna á eigin skinni í Ósló um síðustu helgi þar sem stærsta flugmóðurskip heims, USS Gerald R. Ford, var í heimsókn og á leið til æfinga með norska flughernum við Vesterålen.
„Ég var nú reyndar ekki með en Christopher var þarna og öll áhöfn skipsins kom bara á markaðinn hjá honum og keypti allt, það seldist bara upp hjá okkur. Þeim fannst þetta svo ódýrt og fínt, Christopher hafði ekki undan,“ segir Ingibjörg Gísladóttir, Akureyringur og miðaldaáhugakona með meiru, við mbl.is á miðaldahátíðinni í Tønsberg sem var vel sótt í blíðskaparveðri um helgina.