100 mílna hlaupið haldið um helgina

Fjöldi utanvegahlaupara mun taka þátt í Hengli Ultra um helgina.
Fjöldi utanvegahlaupara mun taka þátt í Hengli Ultra um helgina. Ljósmynd/Aðsend

Hengill Ultra, stærsti utanvegahlaupsviðburður landsins, verður nú haldinn í tólfta skiptið um helgina. Munu þátttakendur hlaupa fjölbreyttar leiðir og er sú lengsta hundrað mílur, eða 160 kílómetrar.

Þátttakendur hlaupsins koma hvaðanæva úr heiminum en dæmi eru um keppendur frá Mexíkó, Grænlandi og Ástralíu. Í samtali mbl.is við Einar Bárðarson, einn af skipuleggjendum viðburðarins, kemur fram að í dag hafi fjöldi skráðra þátttakenda verið 830. Þátttakendur hafa verið í kringum þúsund undanfarin ár en segir hann fleira fólk hafa skráð sig þegar það komst ekki úr landi vegna heimsfaraldurs. Segist hann engu að síður sáttur með tölurnar í ár, að þær séu góðar miðað við hvernig veðurspáin hefur verið.

„Spáin fyrir helgina hefur náttúrulega ekkert verið ákjósanleg en hún er að batna til muna og reyndar farin að líta mjög vel út,“ segir Einar og bætir síðar við að enn sé opið fyrir skráningu í einhver hlaup: „Þannig ef fólk er að detta í hlaupagírinn í góða veðrinu í dag, þá er það enn hægt.“

Hlaupurum er boðið að velja úr sex mismunandi vegalengdum, allt frá fimm km til 160 km. Er skráningu í lengstu vegalengdirnar nú lokið en fólki er enn kleift að skrá sig í fimm eða tíu km hlaupin fram á laugardag.

Hlaupið verður meðal annars á Hengli.
Hlaupið verður meðal annars á Hengli. Ljósmynd/Bernhard

Hlaupið í miðnætursólinni

Öll hlaupin munu hefjast við Skyrgerðina í Hveragerði en fyrstu hlaupararnir munu fara af stað klukkan átta á föstudagsmorgninum og taka þeir þátt í hundrað mílna hlaupinu. Munu alls níu hlaup vera ræst frá Skyrgerðinni en þrjár vegalengdanna verða auk hefðbundinnar útgáfu að degi til vera útfærðar í miðnæturhlaupi. Voru miðnæturhlaupin fyrst kynnt til leiks í hlaupi síðasta árs og segir Einar þau hafa lukkast vel.

„Þá fá fastahlauparar hjá okkur þann möguleika að prófa að hlaupa við aðrar aðstæður þó það sé á sömu braut. Í fallegu sumarveðri og góðu skyggni er náttúrulega bara tryllt að vera þarna í miðnætursólinni,“ segir hann.

Einstakt tækifæri til að láta draumana rætast

Einar greinir frá því að einstaklega skemmtilegt sé að fá að standa að því að fólk nái markmiðum sínum.

„Það sem manni þykir skemmtilegast er þegar fólk kemur í mark stútfullt af endorfíni og gleði eftir að hafa lagt þetta á sig og sigrast á takmörkunum sem það er jafnvel búið að undirbúa sig fyrir í fleiri ár,“ segir hann.

Mikil gleði er meðal hlaupara sem ná markmiði sínu og …
Mikil gleði er meðal hlaupara sem ná markmiði sínu og klára hlaup Hengils Ultra. Ljósmynd/Aðsend

Að hans sögn er Hengill Ultra einstakt tækifæri til að hlaupa langar vegalengdir og fá það staðfest í löglegri braut. Þátttaka í svona löngum hlaupum erlendis geti kostað fleiri hundruð þúsund krónur og sé dagsformið ekki gott á keppnisdegi sé sá peningur fyrir bí. Það sé miklu minni peningur og áhætta fólgin í þátttöku Hengils Ultra en hæsta skráningargjaldið er þar rétt tæpar 45.000 kr.

Sjö áratugir á milli yngsta og elsta keppandans

Samkvæmt skráningarvef hlaupaviðburðarins eru sex þátttakendur skráðir í hundrað mílna hlaupið og elsti keppandi Hengils Ultra í ár meðal þeirra. Er það skurðlæknirinn og afrekshlauparinn Höskuldur Kristvinsson, sem verður 74 ára á árinu. Yngsti keppandi Hengils Ultra er aftur á móti sjö áratugum yngri en Höskuldur, aðeins fjögurra ára gamall. Það er hann Franz Andrés Jónasson sem skráður er í fimm kílómetra hlaupið.

Hengill Ultra mun fara fram núna á föstudaginn og laugardaginn og verður viðburðinum streymt á Facebook og Vísi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert