Aðalsteinn Leifsson, fyrrverandi ríkissáttasemjari, kannast ekki við ítrekuð símtöl til seðlabankastjóra. Hann segist hafa hringt í Ásgeir Jónsson aðeins einu sinni, þann 25. nóvember á síðasta ári.
Í samtali við mbl.is kveðst Aðalsteinn muna dagsetninguna vel, því hann fór í viðtal við RÚV sama dag. Aðalsteinn segir að erindið hafi ekki verið að hafa áhrif á vaxtaákvarðanir bankans.
Ásgeir segir í samtali við Morgunblaðið í dag að Aðalsteinn, í embætti ríkissáttasemjara, hafi ítrekað hringt í sig.
Hann segist hafi tekið skýrt fram í samtali þeirra tveggja að hann virti sjálfstæði bankans og hann ætlaði ekki að hafa áhrif á ákvarðanir hans. Erindið, segir Aðalsteinn, var að fá Ásgeir til að tala af virðingu við og um aðila vinnumarkaðarins.
„Því það er þannig, að ef okkur á að takast að ná tökum á verðbólgunni, sem er aðkallandi vandamál, þá þarf gott spjall milli aðila og að virðing sé borin fyrir þeim ólíku hlutverkum sem fólk hefur. Mér sýnist af þessu viðtali við seðlabankastjóra að það sé engin vanþörf á því að benda honum á þetta,“ segir Aðalsteinn.
Aðalsteinn segist ekki skilja hvers vegna Ásgeir rjúfi nú trúnað um tveggja manna tal og að hann viti ekki hvað seðlabankastjóra gangi til. Hann segist ekki leggja mikið upp úr því að segja megi nú frá öllu, þar sem hann gegni ekki lengur embætti ríkissáttasemjara.
„Ég ætla ekki að fara djúpt í tveggja manna tal, því ég lít svo á að um það gildi enn trúnaður, jafnvel þótt hann hafi aðrar hugmyndir um trúnað en ég.“