BSRB sakar sveitarfélög um verkfallsbrot

Verkfallsvörður á vegum BSRB.
Verkfallsvörður á vegum BSRB. Ljósmynd/BSRB

Stéttarfélagið BSRB hefur sent frá sér tilkynningu um röð verkfallsbrota sem hafa átt sér stað í þrettán sveitarfélögum síðustu tvo sólarhringa.

Þetta sé nýbreytni, því fáar tilkynningar hafi borist um slíkt vikurnar á undan. Brotin eiga sér einkum stað í leikskólum þar sem stjórnendur hafa verið beðnir um að framfylgja skipulagsbreytingum sem fela í sér verkfallsbrot.

Þau sveitarfélög sem BSRB kvartar sérstaklega undan eru Kópavogur, Garðabær, Árborg, Ölfus, Seltjarnarnes, Hveragerði, Reykjanesbær, Grundarfjörður, Snæfellsbær, Dalvík, Stykkishólmur, Borgarnes og Vestmannaeyjar.

Flest brot í leikskólum 

Brotin felist meðal annars í því að börn séu færð á milli deilda, starfsfólki sem ekki er í verkfalli boðið að taka börnin sín með í vinnu svo það þurfi ekki að vera heima og foreldrar beðnir um að senda börn í leikskólann með nesti þrátt fyrir að matráður sé í verkfalli.

BSRB hótar að vísa þessum brotum til Félagsdóms láti Samband íslenskra sveitarfélaga ekki af þeim hið fyrsta. Þau telja mjög alvarlegt að Samband íslenskra sveitarfélaga sé með beinum hætti að reyna að draga úr áhrifum verkfalla sem eru lögvarin réttindi launafólks.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert