Ragnar Þór Pétursson, fyrrverandi formaður Kennarasambands Íslands, segir einkunnakerfið í grunnskólum á Íslandi vera meingallað nú til dags og hvetur þá framhaldsskóla sem vilji fá bestu nemendurna til sín til að vera með inntökupróf í stað þess að miða við staf á blaði.
Þetta kemur fram í færslu á Facebook-síðu Ragnars.
Ragnar segir það skjóta skökku við að einn bókstafur tákni stöðu og færni nemenda á tilteknu sviði og segir muninn á nemanda sem fær B og nemanda sem fær C vera afskaplega óljósan.
Hann segir þetta koma sér einstaklega illa fyrir nemendur sem sækjast eftir því að komast í vinsælan framhaldsskóla. Hann tekur fram að þeir framhaldsskólar sem vilja „fleyta rjómann af nemendahópnum til þess að tryggja að nemendahópurinn sé örugglega nógu stórkostlegur,“ líti aðeins til þessara bókstafa á einkunnarspjaldinu þegar þeir velja inn í skólann.
Hann segir þá ekki litið við nemendum sem fá C í einkunn og að A-einkunn sé það sem öllu máli skiptir. Hann segir þetta valda því að allan tíunda bekk sé stórt hlutfall nemenda að farast úr áhyggjum.
„Allan tíunda bekk er síðan nánast allur bráðgeri hluti tíunda bekkjar í okkar landshluta meira og minna sturlaður af áhyggjum yfir því hvort hann komist í hóp útvalinna. [...] Þannig verður einn skitinn bókstafur að verðmætri vöru. Tíu ára nám er niðursoðið í eina tilviljanakennda lýsingu og tilgangur náms horast niður í ómerkilegasta hismi,“ segir hann.
Hann segir að þessu þurfi að linna og hvetur því framhaldsskóla sem vilja „fleyta rjómann ofan af samfélaginu“ að halda frekar inntökupróf eða setja upp inntökuferli þar sem þeir nemendur sem vilja geta sýnt hvað í þeim býr.
Hann segir að ferlið ætti að vera gegnsætt og sanngjarnt og ítrekar að strákar ættu að fá afslátt í því kerfi vegna kyns síns. Þá skipti margt meira máli en frammistaða nemanda í grunnskóla:
„Það ætti að athuga í slíku ferli hvað er á bak við töluna. Kynnast gítarsnillingnum sem situr heima og plokkar upp Pink Floyd af hljómplötum, unga eldhuganum sem í uppreisn neitar að skrifa ufsilon - og er frumlegri hugsuður en við öll, lesblinda dugnaðarforkinum sem bítur í skjaldarrendur og ræðst stöðugt á fjallið og er svo listrænn að það mætti halda að það rynni olíumálning í æðum hans, unga fiðlusnillingnum sem í laumi leggur Bach á hilluna og spilar þungarokk.“
Að hans mati er núverandi kerfi rugl sem beri að leggja niður og að mikilvægast sé að leyfa börnum að útskrifast úr grunnskóla án þess að tilvist þeirra sé smættuð niður í yfirborðskennda stafrófsröðun.
Hér fyrir neðan má lesa Facebook-færslu Ragnars í heild sinni.