Að venju hafði lögreglan á höfuðborgarsvæðinu í nægu að snúast í gærkvöldi og nótt.
Höfð voru afskipti af einstaklingi í miðborginni sem hefur síðustu nætur farið um með stóran hátalara og spilað háværa tónlist og þannig truflað nætursvefn íbúa. Lögregla haldlagði hátalarann eftir að viðkomandi hafði verið gefið ítrekað færi á að hætta að spila en án árangurs. Viðkomandi á von á kæru vegna brots á lögreglusamþykkt, að því er fram kemur í dagbók lögreglu.
Lögregla fékk tilkynningu um mjög ölvaðan einstakling í sundi í miðbænum en sá vildi ekki fara að fyrirmælum starfsfólks. Lögregla vísaði viðkomandi úr lauginni.
Þá sinnti lögregla tilkynningum um bæði skemmdarverk í fjölbýlishúsi og þjófnað úr verslun í miðborginni.
Sitthvað kom inn á borð umferðarlögreglu. Lögreglu barst tilkynning um umferðaróhapp í Garðabæ þar sem engin slys urðu blessunarlega á fólki en eitthvert tjón á ökutækjum. Þá var ekið á einstakling á rafhlaupahjóli og tilkynnt um reiðhjólaslys í Kópavogi.
Höfð voru afskipti af þremur ökumönnum sem enn óku um á nagladekkjum og þrír ökumenn voru stöðvaðir vegna gruns um akstur undir áhrifum fíkniefna, en einn þeirra reyndist án ökuréttinda.