Herstjórnarmiðstöð á Íslandi

Gaddavír umkringir tjöldin á herstjórnarmiðstöðinni.
Gaddavír umkringir tjöldin á herstjórnarmiðstöðinni. mbl.is/Arnþór Birkisson

Sameiginlega viðbragðssveitin, eða JEF (e. Joint Expeditionary Force), hefur sett upp færanlega herstjórnarmiðstöð á varnarsvæðinu í Reykjanesbæ í æfingaskyni. 250 manns taka þátt í verkefninu sem verður hér á landi út júní.

Hershöfðinginn Jim Morris, yfirmaður JEF, segir í samtali við mbl.is að Ísland sé mikilvægur bandamaður til að tryggja öryggi á Norður-Atlantshafi.

JEF hefur sett upp herstjórnarmiðstöð á Íslandi.
JEF hefur sett upp herstjórnarmiðstöð á Íslandi. mbl.is/Arnþór Birkisson

Kemur ekki í stað NATO

„JEF er bandalag tíu ríkja sem deila svipuðum gildum. Þetta er öryggisbandalag sem æfir sig gagnvart fjölþátta öryggisógnum sem við á þessu svæði gætum þurft að glíma við í framtíðinni og því gott að vera undirbúin,“ segir Morris.

„Samtökin eru afsprengi NATO og vinna náið með þeim. Við erum ekki með her og munum aldrei koma í stað NATO. Hlutverk okkar er í raun að leysa öryggisógnir áður en til stríðs kemur.“

Viðbragðsherbergi JEF.
Viðbragðsherbergi JEF. mbl.is/Arnþór Birkisson

250 manns taka þátt

Markmiðið með æfingunni er að gefa þátttökuríkjum tækifæri til að kynnast aðstæðum á Íslandi, setja upp færanlega herstjórnarmiðstöð, þróa viðbragðsáætlanir og æfa sviðsmyndir sem tengjast öryggisáskorunum á sviði fjölþáttaógna.

Um 250 manns frá stjórnstöð JEF, þátttökuríkjum og öðrum vinaþjóðum taka þátt. JEF er leitt af Bretlandi en bandamenn eru Norðurlöndin, Eystrasaltsríkin og Holland. Þetta er í fyrsta sinn sem viðbragðssveitin heldur æfingu á Íslandi.

Jim Morris er yfirmaður JEF.
Jim Morris er yfirmaður JEF. mbl.is/Arnþór Birkisson

Ísland mikilvægur þátttakandi

Morris segir Ísland vera með sérfræðiþekkingu á málefnum norðurslóða, sem sé afskaplega mikilvæg fyrir bæði JEF en líka Atlantshafsbandalagið.

„Það er mjög mikilvægt að Ísland sé hluti af JEF og við höfum notið mjög góðs af því síðan þið genguð inn í bandalagið árið 2021. Ísland er með gott innsæi í málefni norðurslóðanna og sér áskoranir svæðisins á annan hátt en þjóðir sem eru svæðinu fjær.“

Á herstjórnarmiðstöðinni eru hermenn.
Á herstjórnarmiðstöðinni eru hermenn. mbl.is/Arnþór Birkisson

Ánægður með aðstöðuna

„Hér í Keflavík eruð þið með frábærar aðstæður sem hafa gert okkur kleift að sýna fram á það hvernig JEF-stjórnstöðin getur gert sig tilbúna á skömmum tíma. Við höfum átt í góðum samskiptum við stjórnvöld á Íslandi og erum þakklát fyrir frábærar móttökur af hálfu Íslendinga,“ segir Morris.

Kafteinn hjá breska hernum.
Kafteinn hjá breska hernum. mbl.is/Arnþór Birkisson

Utanríkisráðuneytið og varnarmálasvið Landhelgisgæslunnar halda utan um skipulag verkefnisins af hálfu Íslands.

Verkefnið er umfangsmikið.
Verkefnið er umfangsmikið. mbl.is/Arnþór Birkisson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert