Félag sjúkrahúslækna (FSL) lýsa þungum áhyggjum vegna yfirlýstrar stefnu stjórnvalda og áforma um opin og/eða verkefnamiðuð vinnurými lækna á heilbrigðisstofnunum.
Í ályktun sem samþykkt var á aðalfundi félagsins segir að félagið telji að skerðing hefðbundinna vinnurýma lækna muni gera erfitt fyrir að tryggja persónuvernd sjúklinga og muni „skaða starfsumhverfi, takmarka getu til að sinna hefðbundnum starfskyldum, umgjörð gæðavinnu og draga úr aðstöðu til nauðsynlegra vísindarannsókna“.
Býður félagið fram krafta sína til að móta vinnurými lækna á heilbrigðisstofnunum til framtíðar með hag sjúklinga og starfsmanna að leiðarljósi.
Einnig hefur félagið áform um að stofna trúnaðarmannakerfi lækna í samvinnu við meðal annars Læknafélag Íslands. Í ályktun félagsins segir:
„Fjölmörg mál innan heilbrigðisstofnana hafa komið upp seinustu ár sem hafa sýnt fram á þörf á auknum stuðningi við lækna og ráðgjöf í erfiðum ágreiningsmálum við vinnuveitendur og opinbera eftirlitsaðila.“
Tvö voru endurkjörin í stjórn félagsins á fundinum, en það voru Theódór Skúli Sigurðsson, formaður FSL, og Valgerður Rúnarsdóttir sem hlaut endurkjör gjaldkera.
Í stjórn sitja einnig þau Inga Jóna Ingimarsdóttir varaformaður, Óskar Örn Óskarsson ritari og Ragnheiður Baldursdóttir meðstjórnandi.