Mesta brottfall grunnskólakennara í áratug

13,8% brottfall var meðal kennara frá haustinu 2021 til haustsins …
13,8% brottfall var meðal kennara frá haustinu 2021 til haustsins 2022. mbl.is/Hari

785 kennarar sem voru við kennslu í grunnskólunum haustið 2021 voru það ekki haustið 2022, eða 13,8% af þeim rúmlega 5.700 kennurum sem um ræðir.

Þetta er mesta brottfall kennara í um áratug eða síðan árið 2013 þegar það var 14,1%, ef marka má tölur frá Hagstofunni.

Þegar eingöngu er litið til kennara með kennsluréttindi var brottfallið 11,8%.

Tæplega þriðjungur lokið meistaragráðu

Hagstofan birtir ítarlegri upplýsingar en áður um háskólamenntun starfsmanna við kennslu í grunnskólum, þar sem háskólamenntun er greind eftir prófgráðum. Tæplega þriðjungur grunnskólakennara hefur lokið meistaragráðu og rúm 63% hafa lokið grunnprófi á háskólastigi.

Til að fá leyfisbréf sem kennari til starfa í grunnskóla þarf núna að hafa lokið meistaragráðu en eldri leyfisbréf gilda áfram.

Haustið 2022 voru 974 af 5.778 starfsmönnum við kennslu án kennsluréttinda eða 16,9% og hafði réttindalausum kennurum fjölgað um 46 talsins frá hausti 2021.

Konum fjölgað en fjöldi karla staðið í stað

Frá haustinu 1998 hefur konum við kennslu fjölgað úr tæplega 3.000 í rúmlega 4.700 en á sama tíma hefur körlum fjölgað um 1, frá 1.052 í 1.053. Vert er þó að geta þess að körlum við kennslu hafði fækkað frá árinu 1998 til ársins 2016, en fjölgað ár frá ári síðan þá. Körlum fjölgaði um 30 talsins frá haustinu 2021 til haustsins 2022.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert