Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, borgarfulltrúi Viðreisnar, segir borgarráð bundið trúnaði varðandi samkomulag við konu sem átt hefur í lögfræðideilu við Reykjavíkurborg í áratug vegna svokallaðs „Shaken baby“ máls. Konan gagnrýnir vinnubrögð borgarlögmanns.
Vísir.is greindi frá því í dag að borgarráð hafi samþykkt bótakröfu konunar upp á 33 milljónir króna auk lögfræðikostnaðar. Sagði konan borgarfulltrúa hafa hlegið að upphaflegri bótakröfu hennar um 45 milljónir. Henni hafi blöskrað svo að hún fékk blóðnasir, þegar borgin bauð henni svívirðilega lágt móttilboð í staðinn.
Móðirin kvaðst fordæma aðför borgarlögmanns, sem hafi hlegið að fyrsta tilboði hennar um 45 milljón króna bætur. Kvaðst hún vona að borgarlögmaður þyrfti að sitja fyrir svörum vegna háttsemi sinnar.
Í samtali við mbl.is segir Þórdís Lóa borgarráð hafa haft litla aðkomu að málinu og borgarfulltrúar séu bundnir algjörum trúnaði varðandi þau gögn sem þeim voru kynnt á borgarráðsfundi í morgun og geti því ekkert þeirra svarað fyrirspurnum blaðamanns.
Konan og barnsfaðir hennar voru sökuð um að hafa hrist níu mánaða gamlan son sinn harkalega, en móðirin fór með son sinn á sjúkrahús árið 2013 eftir að hann hafði skollið með hnakka í gólf, þar sem hann æfði sig að standa. Við skoðun kom í ljós blæðing á heila og augnbotni sem eru tvö af einkennum Shaken Baby.
Lögregla hætti rannsókn tæpu ári síðar og greiddi ríkið foreldrunum miskabætur vegna aðgerða lögreglu og Barnaverndarstofu, en barnið var vistað utan heimilisins í fjóra mánuði. Reykjavíkurborg hafnaði hins vegar bótakröfu fjölskyldunnar og hófst þar með löng deila.
Konan glímir við áfallastreituröskun og þunglyndi í kjölfar málsins og er öryrki í dag. Segir hún skaðabætur borgarinnar því vera sambærilegar skaðabótum eftir slys, en málið hefur valdið henni miklum skaða.