Segir ummæli seðlabankastjóra dæma sig sjálf

Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR og Ásgeir Jónsson, seðlabankastjóri
Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR og Ásgeir Jónsson, seðlabankastjóri Samsett mynd

„Þessi ummæli sýna hvaða ham seðlabankastjóri er í,“ segir Ragnar Þór Ingólfsson formaður VR í kjölfar viðtals Ásgeirs Jónssonar seðlabankastjóra í Morgunblaðinu í dag.

Ásgeir segir þar að verkalýðshreyfingin hafi gert kröfu um 2,5% launahækkun æðstu ráðamanna og því hljóti sú krafa að leggja línuna fyrir allar kjaraviðræður fram undan.

Hvergi hægt að finna yfirlýsingar

„Þessi ummæli sýna í hvaða ham seðlabankastjóri er. Það er hvergi hægt að finna yfirlýsingar eða einhverja sérstaka beiðni frá verkalýðshreyfingunni um það að æðstu ráðamenn ættu að hækka laun sín um 2,5%,“ segir Ragnar Þór í samtali við mbl.is.

„Hins vegar höfum við í verkalýðshreyfingunni verið gagnrýnd mjög, bæði af stjórnvöldum og Seðlabankanum, fyrir okkar kröfur.“

Stjórnvöld skuli fara fram eins og þau sjálf boða

Ragnar heldur áfram:

„Það sem lá fyrir var að æðstu embættismönnum voru ætlaðar miklu meiri krónutöluhækkanir en okkur í verkalýðshreyfingunni stóðu til boða. Í framhaldinu gerði ég þá kröfu til stjórnvalda að þau færu fram með því fordæmi sem þau sjálf boða; að taka sér ekki meira en það sem þau ætla fólkinu í landinu til að standa undir þeirri dýrtíð sem herjar á þjóðina.

En það að ætla að við höfum sérstaklega beðið um þessa 2,5% hækkun og að það sé lína inn í kjaraviðræður framtíðar eru ummæli sem dæma sig sjálf.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert