Skjálftahrina í Mýrdalsjökli

Horft til vesturs yfir Mýrdalsjökul og Kötlu.
Horft til vesturs yfir Mýrdalsjökul og Kötlu. mbl.is/RAX

Jarðskjálftahrina hófst í Mýrdalsjökli rétt fyrir klukkan eitt í dag. Óyfirfarnar frumniðurstöður sýna að stærsti skjálftinn hafi verið af stærðinni 1,6.

„Skjálftarnir eru á um það bil tíu kílómetra dýpi, þannig að þetta gætu allt eins verið tektónískir skjálftar en það er erfitt að fullyrða eitthvað um það núna,“ segir Sigríður Magnea Óskarsdóttir, náttúruvársérfræðingur hjá Veðurstofu Íslands, í samtali við mbl.is.

Hún bendir á að svæðið sé ekki óþekkt og að smá skjálftahrina hafi verið 25. mars, þegar nokkrir skjálftar mældust.

Alltaf með augun opin

„Frá 1991 hafa þarna og í nágrenni mælst um níuþúsund skjálftar, þannig að þetta er ekki óþekkt svæði þó svo að við fáum kannski ekki oft skjálfta þarna.“

Spurð hvort fylgst sé vel með svæðinu segir Sigríður:

„Katla hefur verið frekar virk í vetur og núna í vor þannig að við erum alltaf með augun á henni og öllum eldfjöllunum líka svo sem.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka