Áætlað er að reisa 390 metra langan viðlegukant í Helguvík á Reykjanesskaga fyrir herskip Atlantshafsbandalagsins. Einnig er gert ráð fyrir að koma þar á fót 25.000 rúmmetra eldsneytisbirgðageymslu.
Framkvæmdin yrði upp á fimm milljarða króna, án virðisaukaskatts. Friðjón Einarsson, formaður bæjarráðs Reykjanesbæjar, staðfestir þetta í samtali við mbl.is.
Utanríkisráðuneytið sendi Reykjanesbæ bréf í síðustu viku þessa efnis, þar sem óskað var eftir fulltrúa í hóp sem leiða mun þetta verkefni.
Það verði unnið í samvinnu Atlantshafsbandalagsins, utanríkisráðuneytisins, Reykjanesbæjar, Reykjaneshafnar og varnarmálasviðs Landhelgisgæslunnar. Halldór Karl Hermannsson hafnarstjóri varð fyrir valinu fyrir hönd Reykjanesbæjar.
Bæjarráð Reykjanesbæjar fundaði í morgun og tók það vel í fyrirhugaða framkvæmd. Ekki eru komnar teikningar fyrir framkvæmdina og enn lítil undirbúningsvinna eftir, fram á næsta ár.
Ekki er komið að þeim tímapunkti þar sem sveitarfélagið samþykkir framkvæmdina en Friðjón segir að miðað við það hvernig hugmyndin líti út núna þá sé lítið því til fyrirstöðu að samþykkja.
Verkefnið er á vegum Atlantshafsbandalagsins og byggir á þörf fyrir eldsneytisbirgðir á Norður-Atlantshafi.