Verðmæti óskilamuna þriggja yngstu bekkjardeilda Egilsstaðaskóla þennan vetur reyndist nema tæpri einni og hálfri milljón króna, samkvæmt úttekt nemenda skólans.
Markmið úttektarinnar var að vekja athygli á sjálfbærni og því umfangsmikla ferli sem á sér stað við flutning og framleiðslu fatnaðar.
Í umfjöllun Austurfréttar kemur fram að nemendur í öðrum bekk skólans hafi safnað saman óskilamunum þessara þriggja yngstu árganga eftir nýliðinn vetur og fundið gróflega út verðgildi hvers og eins hlutar.
Úrval útifatnaðar í óskilamununum var mikið og þónokkuð var þar um merkjavörur, sem juku samanlagt verðgildi munanna að einverju leyti.
Framkvæmdu krakkarnir rannsóknina með hjálp kennara síns, Drífu Magnúsdóttur, sem átti hugmyndina að verkefninu. Haft er eftir Drífu að það hafi komið flestum á óvart hvaðan fötin komu og hve langt ferli átti sér stað áður en þau svo týndust á göngum skólans.
„Þetta var aðeins til að vekja þau til umhugsunar enda fatnaður stór hluti af því sem endar í ruslinu þó nothæft sé.“
Nánar á vef Austurfréttar.