100 notaðar sprautunálar fundust á víðavangi

Tilkynnt var um 100 notaðar sprautunálar á víðavangi.
Tilkynnt var um 100 notaðar sprautunálar á víðavangi. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Óskað var eftir aðstoð lögreglu þegar hundrað notaðar sprautunálar fundust á víðavangi. Málið var bókað í gærkvöldi eða í nótt á lögreglustöð 1 sem sinnir útköllum á Seltjarnarnesi, Vesturbæ, miðbæ og austurbæ. 

Lögregla fór á vettvang og fjarlægði nálarnar til að sporna við slysi eða óæskilegu smiti. Þetta kemur fram í dagbók lögreglu. 

Þá var tilkynnt um einstakling sem var með blæðandi sár á höfði. Lögregla fór á vettvang ásamt sjúkraliði og reyndist viðkomandi ölvaður. Kvaðst hann vilja fara heim til sín, sem hann og gerði eftir að hafa fengið aðhlynningu. 

Einnig var tilkynnt um slagsmál í hverfi 108. Þar reyndust tveir einstaklingar í áflogum í heimahúsi. Lögregla stöðvaði slagsmálin og voru báðir handteknir og fluttir á lögreglustöð. Reyndust þeir ekki í „skýrsluhæfu ástandi“ sökum ölvunar. Verða þeir færðir til yfirheyrslu þegar af þeim rennur. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert