Aðalmeðferð í Bankastræti Club-málinu fer fram í veislusal í Gullhömrum í Grafarholti í Reykjavík. Þetta kemur fram í tölvupósti sem öllum 25 verjendum í málinu barst nýlega en þar kemur fram að aðalmeðferðin fari fram dagana 25. til 29. september.
Vísir greindi fyrst frá.
Eins og áður hefur verið skýrt frá eru sakborningarnir í málinu 25 samtals. Fjöldi sakborninga í málinu er fordæmalaus í Héraðsdómi Reykjavíkur en eðli málsins samkvæmt getur aðalmeðferð ekki farið fram í dómsal héraðsdómsins þar sem hann rúmar ekki alla sakborninga og verjendur málsins.
„Aðalmeðferðin mun fara fram í sal að Þjóðhildarstíg 2, í Gullhömrum, en öll aðstaða þar uppfyllir þarfagreiningu dómsins,“ segir í póstinum sem barst til verjendanna.
Málið var þingfest þann 21. mars en aldrei hafa verið fleiri sakborningar í einu máli í sögu Héraðsdóms Reykjavíkur. Málið á rætur sínar að rekja til þess þegar að hópur grímuklæddra manna ruddist inn á skemmtistaðinn Bankastræti Club og réðst að þrem mönnum.