Ákvörðunin kom á óvart og bíða enn rökstuðnings

Hreggviður Jónsson.
Hreggviður Jónsson. mbl.is/Árni Sæberg

Eva B. Helgadóttir, lögmaður Hreggviðs Jónssonar, segir í samtali við mbl.is að hvorki hún né skjólstæðingur hennar hafi enn þá fengið rökstuðning fyrir ákvörðun héraðssaksóknara um að fella niður mál á hendur Vítalíu Lazarevu vegna meintra brota gegn Hreggviði, Ara Edwald og Þórði Má Jóhannessyni.

Eins og greint hefur verið frá felldi héraðssaksóknari niður rannsókn máls á hendur Vítalíu vegna meintra brota er varða fjárkúgun og brota gegn friðhelgi einkalífs Ara, Hreggviðs og Þórðar.

Skoða næstu skref

Eva segir ákvörðunina koma henni og skjólstæðing hennar á óvart en að þau bíði enn eftir rökstuðningi fyrir ákvörðuninni frá embætti héraðssaksóknara.

Héraðssaksóknari sendi út bréf til þeirra er málið varðar þann 6. júní. Í bréfinu kom fram að embættið taldi að málið væri ekki líklegt til sakfellingar miðað við þau rannsóknargögn sem liggja fyrir.

Að svo stöddu kýs Eva að tjá sig ekki frekar um málið. Spurð um viðbrögð við málinu segir hún: „Það er ekki tímabært því höfum ekki fengið að sjá rökstuðning. Við skoðum næstu skref þegar við erum búin að fá hann.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert